Sex milljónir fyrir ólögmæta uppsögn

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi vinnuveitanda bótaskyldan í máli starfsmanns sem sagt …
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi vinnuveitanda bótaskyldan í máli starfsmanns sem sagt var upp vegna óútskýrðra fjarvista. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fyrrverandi starfsmanni fyrirtækis sex milljónir króna í skaðabætur, auk dráttarvaxta, vegna ólögmætrar uppsagnar og vangoldinna launa í veikindafjarvistum og var vinnuveitandanum enn fremur gert að greiða 1,7 milljónir króna í málskostnað. Ekki var fallist á kröfu stefnanda um miskabætur.

Starfsmaðurinn lýsti fyrir dómi erfiðu starfsumhverfi hjá stefnda. Hafi hann upplifað einelti og fjandsamlegt viðmót frá samstarfsfólki en í október 2021 var honum tilkynnt að til skoðunar væri að veita honum áminningu í starfi vegna háttsemi sem ekki samræmdist starfsskyldum hans.

Var meðal annars rakið í því erindi að stefnandi hefði ekki mætt til vinnu án þess að hafa gert grein fyrir fjarvistum eða fengið til þeirra heimild. Enn fremur hefði hann mætt seint og illa til vinnu án þess að gefa á því viðhlítandi skýringar. Var haldinn um þetta fundur á vinnustaðnum sem lyktaði með því að stefnandi lofaði að bæta ráð sitt.

Aftur sígur á ógæfuhliðina

Í mars 2022 barst stefnanda nýtt erindi frá vinnuveitanda sem taldi aftur komið í óefni vegna hins sama. Var boðað til nýs fundar, að þessu sinni að viðstöddum tveimur fulltrúum kjaramála hjá stéttarfélagi stefnanda.

Vakti hann þar athygli á vinnuumhverfi og erfiðleikum á vinnustaðnum sem hann kvað jaðra við einelti og lýsti vonbrigðum sínum yfir að hafa ekki fengið færi á að ræða þau mál á fundinum í október.

Með bréfi dagsettu daginn eftir fundinn var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda með kjarasamningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti og vinnuframlags hans ekki óskað á uppsagnarfresti.

Ekki gætt rannsóknarskyldu

Bar stefnandi ákvörðun stefnda undir ráðherra með stjórnsýslukæru samkvæmt sveitarstjórnarlögum og úrskurðaði innviðaráðuneytið uppsögnina ólögmæta með úrskurði í mars 2023. Vinnuveitanda hefði borið að rannsaka atvik málsins áður en ákvörðun um áminningu í starfi var tekin. Hefðu skýringar stefnanda gefið sérstakt tilefni til slíkrar rannsóknar.

Taldi ráðuneytið vinnuveitanda ekki hafa gætt að rannsóknarskyldu þótt slíkur ágalli ylli því ekki sjálfkrafa að ákvörðun vinnuveitanda yrði talin ólögmæt. Stefnandi hafi formlega tilkynnt yfirmönnum sínum að hann teldi sig beittan einelti á vinnustað og ekki yrði séð að stefndi hefði gripið til aðgerða í samræmi við skyldur hans samkvæmt reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Stefndi hefði þar með vanrækt skyldur sínar samkvæmt reglugerðinni og rannsóknarskyldur samkvæmt stjórnsýslulögum. Uppsögn stefnanda hefði því verið ólögmæt. Maðurinn fór í framhaldinu fram á bætur úr hendi vinnuveitanda sem var hafnað. Stefndi hann vinnuveitandanum þá til greiðslu bóta.

Málatilbúnaður um einelti valtur

Snerist hluti bótakröfunnar um að dregið var af launum stefnanda vegna fjarvista hans. Hafnaði stefndi því að hafa brotið gegn stjórnsýslulögum. Stefnandi hefði fengið skriflegan launaseðil og fengið raunhæft tækifæri til að gera athugasemdir við  launagreiðslur. Þá hafi óstundvísi og fjarvistir stefnanda verið vandamál áður en stefndi ákvað að grípa til þeirra ráðstafana að draga af launum hans.

Hafi uppsögnin verið í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Grundvöllur áminningar, og síðar uppsagnar, hafi verið almennur vandi en ekki eitt afmarkað tilvik. Hafi brot stefnanda varðað áminningu og síðar uppsögn í starfi.

Mat héraðsdóms var að málatilbúnaður stefnanda um einelti stæðist vart þar sem ekki hafi komið skýrlega fram kvartanir um slíkt og þeim þá ekki verið beint til yfirmanna á vinnustaðnum eða annarra þar sem höfðu stöðu til að fara með mál af því tagi. Stefnandi hafi fjallað um eineltið í tölvupóstum en þeim ekki verið beint til yfirmanna hans.

Stefnandi orðið fyrir tjóni

Yrðu ummæli stefnanda á fundunum tveimur ekki talin nógu afgerandi til að ástæða hefði talist til að hefja rannsókn á ætluðu einelti í skilningi laga og reglugerðar. Starfsmönnum stefnda yrði því ekki metið það til sakar að taka ekki sérstaklega upp rannsókn á einelti við þær aðstæður sem uppi voru þegar stefnanda gafst kostur á að tjá sig um fyrirhugaða uppsögn.

Engu að síður taldi héraðsdómur stefnanda hafa orðið fyrir tjóni af völdum uppsagnarinnar. Ekki yrði horft fram hjá því að maðurinn missti starf er hann mátti vænta að fá að gegna uns einhverjar sérstakar ástæður kæmu upp er snertu hann sjálfan eða starf hans á þann veg að honum yrði réttilega sagt upp samkvæmt ákvæðum kjarasamnings að teknu tilliti til málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins.

Yrði mið tekið af framangreindum atriðum við ákvörðun bóta og þær því réttilega ákveðnar sex milljónir króna. Sem fyrr greinir var stefnda einnig gert að greiða málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert