Stendur ekki til að hækka varnargarðana

Fyrri vinna við viðhald á varnargörðum stendur nú yfir.
Fyrri vinna við viðhald á varnargörðum stendur nú yfir. Kristinn Magnússon

Engin áform eru uppi um að hækka varnargarðinn við Svartsengisvirkjun, þar sem hraun flæddi yfir í gær. Hrauntungur ná nú varnargarðinum í hæð, en mikið hraun hefur safnast vestan við Sýlingafell eftir að hraunpollur við Sundhnúksgígaröðina brast. 

„Fyrri vinna við að laga varnargarðana er enn í gangi, en það hefur enn ekki verið tekin ný ákvörðun um það hvort að varnargarðarnir verði hækkaðir sérstaklega,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, sam­skipta­stjóri al­manna­varna, í samtali við mbl.is.

„Við metum bara stöðuna útfrá hvernig gosið þróast og reynum sífellt að bregðast við nýjum vendingum.“ segir Hjördís. 

Varnargarðarnir halda vel  

Spurð hvort að umrædd hraunspýja hafi leitt í ljós einhverja galla á varnargörðunum segir Hjördís svo ekki vera. 

„Varnargarðarnir hafa reynst mjög vel, en það er ómögulegt að reyna spá fyrir um hvort þetta gerist aftur. Hraunið fer sína leið og það getur verið mjög erfitt að stoppa það.“

„Þetta er bara náttúran sem við erum að eiga hér við og auðvitað getur allt gerst í þeim efnum.“ segir Hjördís að lokum. 

Kort/​mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert