Fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka í velferðarnefnd Alþingis hafa lagt fram sameiginlegar breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.
„Þetta snýst um að enginn öryrki verði skilinn eftir,“ er haft eftir Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingar, í tilkynningu frá flokknum um málið.
Jóhann Páll er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en aðrir flutningsmenn eru Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, og Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
„Þess vegna höfum við í stjórnarandstöðunni sameinast, fulltrúar allra flokka, um að leggja til breytingartillögur við örorkufrumvarp ríkisstjórnarinnar. Með breytingunum verjum við kjör öryrkja sem búa einir, tryggjum að enginn lækki beinlínis í tekjum og gætum betur að sjálfsákvörðunarrétti öryrkja á vinnumarkaði svo dæmi séu nefnd,“ er haft eftir Jóhanni.
Stjórnarandstaðan leggur til fimm breytingar á frumvarpinu og áætlaður kostnaður er undir milljarði á ári, að er kemur fram í tilkynningunni.
„Þetta er risastórt velferðarmál sem varðar ekki aðeins alla öryrkja Íslands heldur einnig vinnandi fólk sem getur misst starfsgetu í framtíðinni, ef það veikist til dæmis eða lendir í slysi,“ er haft eftir Jóhanni.