„Vindáttin er þannig hagstæð að lyktin leitar yfir hafnarsvæðið, ekki yfir þorpið. Þetta er mest alveg í nágrenni við frystihúsið sjálft, þannig það er óhætt að vera á hafnarsvæðinu en það er kannski ekki æskilegt nema þú eigir erindi.“
Þetta segir Gerður Björk Sveinsdóttir, starfandi sveitarstjóri sameinaðs sveitarfélags Vesturbyggðar og Tálknafjarðar, í samtali við mbl.is.
Slökkviliðinu í Vesturbyggð barst útkall um þrjúleytið í nótt vegna ammoníaksleka frá gömlu frystihúsi við höfnina á Tálknafirði.
Um 260 manns búa á Tálknafirði en eins og fyrr segir þá er vindáttin hagstæð og leitar lyktin því ekki yfir íbúabyggð.
„Þetta hefði getað verið verra hefði vindáttin leitað yfir þorpið, það mætti kannski segja það. Það er tiltölulega gott veður. Það er lítill vindur en nægilegur þannig að þetta dreifist yfir höfnina, en fólki stafar ekki hætta af ammoníakinu,“ segir hún aðspurð.
Davíð Rúnar Gunnarsson slökkviliðsstjóri sagði í samtali við mbl.is í morgun að ekki væri búið að staðsetja lekann.
Ammoníaks- og kælikerfi eru í þessu húsi, sem er ekki lengur notað sem frystihús, auk þess sem kælar og frystar eru í húsinu við hliðina.
„Í nótt þá var megn stækja og það tók á móti okkur hvítur reykur frá ammoníaki. Sem betur fer fór það beint út á sjó,” sagði Davíð Rúnar og bætti við að enn væri heilmikil lykt inni í húsinu og þar fyrir utan.
„Núna erum við annars vegar að leita að lekanum og hins vegar að reykræsta.”