Bergþór: Sjálfstæðismenn taka ábyrgð á stjórnsýslu Bjarkeyjar

Bergþór mælti fyrir tillögunni fyrir hönd Miðflokksins.
Bergþór mælti fyrir tillögunni fyrir hönd Miðflokksins. mbl.is/Eyþór Árnason

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir ljóst að mikil pressa hafi verið sett á stjórnarliða um að verja Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra vantrausti. 

Hann segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Norðvesturkjördæmis, sem kusu gegn tillögunni, séu að taka ábyrgð á stjórnsýslu Bjarkeyjar.

„Þegar fréttir bárust af því að Vinstri grænir hefðu lagt þá línu að ef einhver stjórnarliði greiddi atkvæði með vantraustinu þá þýddi það að ríkisstjórnin væri fallin, þá ímynda ég mér að það hafi verið lagst með miklum þunga á þá sem höfðu íhugað að styðja málið,“ segir Bergþór í samtali við mbl.is.

Kom á óvart að fleiri sátu ekki hjá

Tillagan var lögð fram af Miðflokknum og studdu hana allir í stjórnarandstöðunni. Stjórnarliðar vörðu Bjarkeyju, að undanskildum Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem sat hjá.

„Það hefði komið mér mjög á óvart hefði Jón Gunnarsson varið Bjarkeyju Olsen eftir orð hans á fyrri stigum og þeim miklu áhyggjum sem hann hafði lýst yfir af framgöngu ráðherrans,“ segir Bergþór og bætir við að það hefði komið honum á óvart að fleiri stjórnarþingmenn hefðu ekki setið hjá í atkvæðagreiðslunni í ljósi fyrri orða. Hann vill þó ekki nefna nein nöfn. 

Það er staðan sem er uppi“

Finnst þér ákvörðun Jóns um að sitja hjá benda til þess að hann styðji ekki ríkisstjórnina?

„Jón Gunnarsson hefur lýst yfir miklum fyrirvörum og efasemdum á lífvænleika þessarar ríkisstjórnar. Það hefur komið fram í ótal viðtölum þannig hann er bara samkvæmur sjálfum sér þarna og hefði að mínu mati allt eins getað stutt við tillöguna. En ég held að þessi merkjasending hans sé að mörgu leyti sama eðlis,“ segir Bergþór og heldur áfram:

„Það er auðvitað áhugavert að ákveðnir þingmenn í Sjálfstæðisflokknum annars vegar og þingmenn úr Norðvesturkjördæmi hins vegar skuli með þessum hætti taka ábyrgð á stjórnsýslu matvælaráðherra í málinu. Sem ég held að allir séu sammála um í þessum tveimur hópum að sé óforsvaranleg. En það er staðan sem er uppi og þessir þingmenn auðvitað taka þá ákvörðun á sínum forsendum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert