„Ég er auðvitað ósátt við það að Jón sá ekki ástæðu til að styðja mig í þessu máli.“
Þetta segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra sem var fyrir skömmu varin vantrausti án stuðnings Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Jón sat hjá í atkvæðagreiðslunni.
„Ég studdi hann á sínum tíma þegar að hann fékk á sig vantrauststillögu, og var ég þá ekki alltaf sátt við hans málsmeðferð í mjög mörgum málum. En það breytti því ekki engu að síður að mér fannst tilhlýðilegt að styðja samráðherra. Þannig já ég er auðvitað ósátt við það,“ segir hún.
Vantrauststillaga var lögð fram á hendur Jóni á síðasta ári er hann var dómsmálaráðherra, en var felld.
Bjarkey segir að með hjásetu Jóns hafi hann ekki verið að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina, í ljósi orða hans um að slíkt væri ekki tilfellið.
„Hann er bara óánægður með þetta og það er auðvitað öllum frjálst að hafa þessa skoðun. En ég hefði að sjálfsögðu viljað að hann hefði stutt við mig.“
Opnar þetta nú á að það að einhverjir þingmenn Vinstri grænna styðji ekki einhver mál sem þeim hugnast ekki?
„Nei það finnst mér ekki. Við tökum alla hluti málefnalega. Alls ekki. Ég sit í þessari ríkisstjórn og það er gott samstarf við ríkisstjórnarborð þannig ég hef enga ástæðu til þess að ætla að það verði farið út í slíkan leik enda væri þá þetta stjórnarsamstarf búið.“