Efling stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu í dag kjarasamning sín á milli.
Kjarasamningurinn við borgina inniheldur sambærilegar launahækkanir og kjarasamningar Eflingar á almenna markaðnum, sem undirritaðir voru í mars síðastliðnum, segir í tilkynningu frá Eflingu.
Þá er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningunni að samninganefnd félagsins sé ánægð með niðurstöðuna. Góður árangur hafi náðst við samningaborðið og að nýr kjarasamningur muni færa Eflingarfélögum sem vinna hjá Reykjavíkurborg mikilvægar kjarabætur á næstu árum.
Eins og mbl.is hefur fjallað um var eitt helsta baráttumál Eflingar að deildarstjórar á leikskólum í félaginu fengju jafn mikinn undirbúningstíma og deildarstjórar í Félagi leikskólakennara.
Í tilkynningunni segir að mjög góður árangur hafi náðst í fjölgun undirbúningstíma hjá deildarstjórum sem starfa á leikskólum borgarinnar. Auk þess hafi náðst góður árangur í að bæta og skýra grein sem fjallar um undirbúningstíma annarra starfsmanna leikskólanna.
Þá náðist jafnframt góður árangur í ýmsum mikilvægum úrbótamálum sem samninganefnd Eflingar hafði sett á oddinn í viðræðunum, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Samningaviðræður Eflingar við Reykjavíkurborg höfðu staðið yfir síðan um miðjan apríl, án þess að þokast verulega áfram. Samninganefnd Eflingar vísaði því kjaradeilunni til ríkissáttasemjara 27. maí síðastliðinn og eftir það komst nokkur skriður á viðræðurnar, sem nú hefur skilað góðri niðurstöðu. Kjarasamningur Eflingar við borgina rann út 31. mars síðastliðinn, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Hafist verður handa við að kynna hinn nýja kjarasamning á allra næstu dögum og atkvæðagreiðsla um samningana hefst innan skamms. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar eiga að liggja fyrir ekki síðar en 10. júlí. Frekari upplýsingar um efni samningsins og atkvæðagreiðslu verðafljótlega birtar á heimasíðu félagsins.
„Samninganefnd Eflingar er ánægð og stolt af góðum árangri í viðræðum okkar við Reykjavíkurborg. Við settum okkur markmið vegna mikilvægra úrbótamála og við náðum árangri í þeim velflestum. Félagsfólk Eflingar sem að starfar hjá Reykjavíkurborg er ómissandi starfsfólk. Það er ánægjulegt að sjá og upplifa að Reykjavíkurborg skilur að hlusta þarf á kröfur okkar og mætir okkur með samningsvilja í kjarasamningsviðræðum,“ er haft eftir Sólveigu Önnu í tilkynningunni.