Ekkert hraun yfir varnargarðinn í nótt

Eldgosið við Sundhnúkagíga.
Eldgosið við Sundhnúkagíga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Virknin í eldgosinu við Sundhnúkagíga er svipuð og hún hefur verið að undanförnu. Enn skvettist upp úr einum gíg.

Hraun rennur meðfram varnargarðinum við Svartsengi en ekkert hefur farið yfir hann í nótt, að sögn Elísabetar Pálmadóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, sem bætir við að hraunið renni hægt áfram.

Jarðskjálftavirkni er í lágmarki eins og verið hefur eftir að gosið hófst.

Ekki hefur mælst nein gosmóða að viti og hefur magn brennisteinsdíoxíðs ekki farið yfir nein heilsuverndarmörk í nótt.

Gasdreifingarspá Veðurstofu Íslands er á þann veg að sunnan og síðar suðaustan 3 til 8 metrar á sekúndu verða í dag. Gas berst til norðurs og norðvesturs í átt að Reykjanesbæ og Vogum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert