Festist í minkagildru og er í lífshættu

Hér má sjá minkagildruna og köttinn sem lenti í henni. …
Hér má sjá minkagildruna og köttinn sem lenti í henni. Myndin er samsett. Ljósmynd/Villikettir

Formaður dýraverndunarsamtakana Villikatta, Jacobina Joensen, hefur fengið sig fullsadda af því að minkagildrur séu lagðar um höfuðborgarsvæðið og leggi líf dýra í hættu. Köttur sem festi fót sinn í minkagildru liggur nú í lífshættu hjá dýralækni.

Fyrr í kvöld birtu samtökin færslu á Facebook-síðu sinni þar sem þau segja frá svaðilförum kattarins sem festist í gildrunni og fordæma notkun minkagildra sem þessara, sem séu til þess fallnar að meiða dýr.

„Rétt eftir hádegi í dag fengum við símtal frá manni sem var við Sorpu í Gufunesi. Það hafði leitað til hans kisa sem var með minkagildru fasta um fótinn á sér. Kisan er í lífshættu, fóturinn er möl brotinn og þarf að fjarlægja hann.

Enn einu sinni slasast kisa lífshættulega vegna minkagildru sem sett er út af meindýraeyði, eftirlitslaus og óvarin gildra svo önnur dýr komast í hana. Gildran var fest niður með bandi sem kisa gat slitið og þar sem þetta er gæf kisa þá leitaði hún sér hjálpar hjá mannfólkinu. Ef um vergangs- eða villikött hefði verið að ræða þá hefði hann falið sig og dáið hægum, kvalafullum dauðdaga af sárum sínum,” segir meðal annars í færslu Villikatta.

Færsluna má sjá neðar í fréttinni. 

„Það þarf að taka alla löppina af“

Í samtali við mbl.is segir Jacobina óskiljanlegt að gildrur sem þessar séu enn í notkun. Ekki sé víst að kötturinn sem lenti í gildrunni lifi nóttina af.

„Hún er enn í hættu og nú er hún í bestu höndum en lifir hún nóttina af? Hún þarf að fara í aðgerð og það þarf að taka löppina af upp að öxl. Það þarf að taka alla löppina af og það er stór hætta á því að hún þoli það ekki en þetta þarf að gera. Þetta er ekki djók. Þetta er ábyrgðarleysi, þú hugsar ekkert um hvað dýr pínast í þessu, það eru til aðrar leiðir, við vitum það og við notum þær alla daga. Það eru til gildrur sem þau eru ekki að slasa sig í, af hverju nota þau þetta,“ segir Jacobina.

Jacobina Joensen, formaður Villikatta.
Jacobina Joensen, formaður Villikatta. Ljósmynd/Aðsend

Láta málið ekki kyrrt liggja 

Þá segir hún dýraverndunarfélagið ekki ætla að láta málið kyrrt liggja. Reykjavíkurborg verði að taka ábyrgð á lögn minkagildra um borgina.

„Við erum að bíða eftir samtali við lögfræðing og við verðum að sjá hvað við getum gert við þetta mál. Eins og ég segi, þetta er að koma fyrir aftur og aftur. Þetta eru gildrur sem eru hugsaðar til þess að meiða dýr, þú drepst ekki um leið,“ segir Jacobina og bendir á að hundar hafi einnig sett höfuð sín í gildrur sem þessar. Henni finnist ekki í lagi að hægt sé að kaupa svona gildrur án vandkvæða.

Þá beri mannfólkið ábyrgð á því sem það gerir og Reykjavíkurborg verði að taka á sínum málum. Einnig þurfi að uppfæra lög um dýravernd.

„Næsta skref okkar er að tala við okkar lögfræðinga og önnur dýraverndunarfélög fara að vinna aftur og enn meira í þessum málum er varða dýravernd,“ segir Jacobina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert