Hljómar eins og „Úlfur! Úlfur!“

„Þetta hljómar eins og „Úlfur! Úlfur!“,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, …
„Þetta hljómar eins og „Úlfur! Úlfur!“,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaráðherra segir umhugsunarefni hvernig þingmenn stjórnarandstöðunnar umgangist alvarlega hluti á borð við vantraust á ráðherra.

Til­laga um van­traust á hend­ur Bjarkeyju Ol­sen Gunn­ars­dótt­ur mat­vælaráðherra var felld á Alþingi í dag.

„Þetta er alla vegana orðið mjög mikið umhugsunarefni, hvernig menn umgangast jafn alvarlega hluti eins og vantraust,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra í samtali við blaðamann mbl.is að lokinni atkvæðagreiðslu.

Fjórða vantrauststillagan

Þetta er fjórða van­traust­stil­lag­an sem lögð hef­ur verið fram á vorþingi, og sú þriðja á hend­ur mat­vælaráðherra. 

„Og það eru til kerfi hér í þinginu til að rannsaka hluti og þegar þeir komast að því að þeir séu ámælisverðir eða lögbrot eða eitthvað slíkt, þá ætti frekar að vera grunnur fyrir að leggja fram vantrauststillögu en ekki bara si svona.“

Miðflokksmenn lögðu fram tillöguna að þessu sinni og stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig studdi við tillöguna.

Hljómar eins og „Úlfur! Úlfur!“

„Þetta hljómar eins og „Úlfur! Úlfur!“,“ segir ráðherra aukinheldur og á hann þar sennilega við um þjóðsöguna frekar en hipp-hopp tvíeykið.

Jón Gunnarsson, stjórn­arþingmaður úr röðum sjálf­stæðis­manna, sat hjá þegar þing­heim­ur greiddi at­kvæði.

Það er einn stjórnarliði sem situr hjá, styður hann þar með ekki ríkisstjórnina?

„Hann verður að svara því,“ svarar Sigurður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert