Jón segist ekki skulda Bjarkeyju

Jón Gunnarsson sat hjá.
Jón Gunnarsson sat hjá. mbl.is/Eyþór Árnason

Jón Gunnarsson þingmaður segist ekki skulda Bjarkeyju Olsen matvælaráðherra að verja hana vantrausti, jafnvel þótt hún hafi varið hann gegn slíku í fyrra. Eðlismunur sé á vantrauststillögunum tveimur.

Bjarkey var varin vantrausti fyrr í dag en Jón, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat einn hjá í atkvæðagreiðslunni.

Ákvörðunin um að sitja hjá var væntanlega ekki tekin af mikilli léttúð?

„Nei, það er það ekki og í því felst auðvitað ákveðið vantraust gagnvart ráðherranum og málsmeðferðina á þessu máli,“ segir Jón í samtali við mbl.is í kjölfar atkvæðagreiðslunnar.

„Ég ákvað það að ganga ekki alla leið“

„Þetta var auðvitað heilmikið rætt á mínum vettvangi og ég gerði forystu okkar grein fyrir minni afstöðu, hún lá svo sem fyrir. Ég ákvað það að ganga ekki alla leið af tilliti við aðstæður og það ríkisstjórnarsamstarf sem er leitt af Sjálfstæðisflokknum, það traust sem ég ber til formanns hans og flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.“

„En ég gat ekki tekið þátt í því að greiða gegn þessari tillögu vegna þess að ég hef á henni skilning og ég er sammála þeim forsendum sem liggja til grundvallar,“ segir Jón og bætir við:

„Ég get ekki horft fram hjá því að þarna er verið að ganga á réttindi alþýðufólks í landinu. Alþýðufólks sem hefur – þetta er í annað skiptið, þetta var líka síðasta sumar – getað treyst á uppgripsvinnu. Vertíðarvinnu eins og við Íslendingar gerum oft til að styrkja fjárhag heimilisins.“

Fyrirtæki að verða af miklum tekjum

Ástæða vantrauststillögunnar var fram­ganga Bjarkeyjar við afreiðslu hvalveiðileyfis, en vegna óvenju langs tíma til leyf­is­veit­ing­ar af hálfu mat­vælaráðuneyt­is­ins stefn­ir allt í að engin vertíð verði hjá Hvali hf. í sum­ar.

Jón bendir á að þarna séu fyrirtæki að verða af miklum tekjum, ekki bara Hvalur hf.

Nefnir hann flutningafyrirtæki, vélsmiðjur og iðnaðarmenn sem eru í mikilli vinnu í kringum vertíðina.

„Maður getur bara ekki horft fram hjá þessum hlutum,“ segir Jón.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra er ósátt við það hvernig Jón …
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra er ósátt við það hvernig Jón greiddi atkvæði. mbl.is/Eyþór Árnason

Óábyrgt að slíta ríkisstjórninni: „Krítískir tímar“

Jón segir að hann hafi ákveðið að kjósa ekki með tillögunni þar sem á það sé litið sem jafngildi þess að slíta ríkisstjórninni.

„Ég held að það sé ábyrgðarleysi á þessum tímum núna að stuðla að slíku. Þetta eru mjög krítískir tímar í íslensku samfélagi. Við erum að ná hér í gegn breytingu númer tvö á útlendingalögunum á rúmu ári. Fyrri breytingar hafa haft í för með sér mjög mikla fækkun í umsóknum í vernd og hér kemur inn nýr kafli í lögunum sem mun styðja enn frekar við það af miklum krafti.“

Hann nefnir fleiri mál sem brýnt er að ná í gegn og vísar í breytingar á lögreglulögum og öryrkjakerfinu.

Á ábyrgð VG að halda ráðherrum við efnið

Jón segir að það sé eflaust rétt að stjórnarandstaðan hafi lagt fram vantrauststillöguna til þess að skapa ólgu inn á stjórnarheimilinu. Þrátt fyrir það þá var honum ekki stætt að verja Bjarkeyju í ljósi alvarlegra brota.

„Þá held ég að það sé ekkert óeðlilegt ef að slíkur þingmaður víkur. Ég lít nú svo á í þessu ríkisstjórnarsamstarfi sé það ekki síst á ábyrgð VG að halda sínum ráðherrum við efnið. En þetta virðist vera gert með stuðningi þingflokksins sem gerir málið enn alvarlegra,“ segir hann.

Nær útséð er um hvalveiðar í sumar.
Nær útséð er um hvalveiðar í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarandstaðan engu skárri

Aftur á móti segir hann að flokkar í stjórnarandstöðunni sé engu skárri þegar þeir tala um að banna hvalveiðar.

„Þeir í raun og veru gera sig seka í umræðunni um nákvæmlega sama lögbrotið sem þau eru að ásaka ráðherrann um og eru að styðja vantraustið á. Hér standa upp fulltrúar nokkra flokka og segjast vilja banna hvalveiðar.

Það er auðvitað brot á stjórnarskrá lýðveldisins, að það sé hægt að taka hér á þingi geðþóttaákvarðanir um það að banna einhverja atvinnustarfsemi. Það er bara ekki svoleiðis. Atvinnuréttindi einstaklinga eru tryggð í stjórnarskrá lýðveldisins og það þurfa að vera ríkir almannahagsmunir til grundvallar ef menn ætla að banna einhverja atvinnugrein.“

Vantrauststillögurnar tvær ólíkar

Bjarkey Olsen sagði í samtali við mbl.is í kjölfar atkvæðagreiðslunnar að hún væri ósátt með það að Jón hafi setið hjá. Benti hún á að hún hafði stutt Jón á síðasta ári þegar borin var upp vantrauststillaga gegn honum.

Þér fannst þú ekkert skulda henni?

„Nei. Hún gerði það nú með mjög ákveðnum skilaboðum um að það væri henni þvert um geð, en það er annað mál. Sá grundvallarmunur er að hér er fyrirliggjandi eru rökstuddar fullyrðingar um að verið sé að brjóta lög og stjórnarskrárvarin réttindi. Bæði hjá Svandísi, það liggur fyrir í áliti umboðsmanns, og það er lítill munur á vinnubrögðum Bjarkeyjar núna og Svandísar í fyrra. Þetta var augljóslega gert til að koma í veg fyrir að hvalveiðar gætu hafist í sumar.“

Hann segir að í sínu tilfelli hafi ekki verið lagalegur ágreiningur að þeirra mati. Segir hann að helstu rök Vinstri grænna fyrir því að verja hann hafi meira að segja verið þau að þeir þingmenn sem lögðu fram vantraustið væru að mistúlka lagalegt gildi mats em birtist frá lögfræðingi á nefndarsviði Alþingis.

Lagastofnun Háskóla Íslands hafi seinna komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdir og ákvarðanir Jóns hafi verið fyllilega lögmætar.

Setja þarf hlutina í samhengi

Hann segir aðspurður að það rýri ekki trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins að ekki fleiri þingmenn hafi setið hjá.

Setja þurfi hlutina í samhengi við hagsmuni þess að Sjálfstæðisflokkurinn leiði ríkisstjórn og sé að ná í gegn mikilvægum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka