Reykvíkingur ársins, Marta Wieczorek, segir mikilvægt að brúa bil milli samfélaga og telur ekki gott að ákveðnir hópar samfélagsins einangri sig. Í gegnum starf sitt sem kennari og aðstoðarskólastjóri Pólska skólans hefur hún unnið að því að hjálpa innflytjendum að aðlaga sig íslensku samfélagi.
Tilkynnt var um val á Reykvíkingi ársins í morgun við opnun Elliðaánna en þar talaði forseti borgarstjórnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, um að í gegnum störf sín hefði Marta haft áhrif á líf margra barna í Breiðholti.
Marta flutti til landsins frá Póllandi fyrir 16 árum, þegar hún var 25 ára gömul.
„Ég las mikið af sögum í menntaskóla þar sem talað var um Ísland og féll bara fyrir landinu og langaði að sjá það. Svo heyrði ég að það vantaði leikskólakennara hér, að það væri verið að auglýsa eftir leikskólakennurum á hverjum degi, þannig ég ákvað bara að gera bæði. Sjá landið sem mig langaði að sjá og vinna,“ sagði Marta þegar hún var spurð hvað hefði orðið til þess að hún kom til Íslands.
Marta segir að eins og margir hafi hún aðeins ætlað dvelja hér í ár en ílengst.
Marta starfar nú sem kennari í Hólabrekkuskóla en áður var hún leikskólakennari í Breiðholti. Samhliða þeim störfum hefur hún kennt við Pólska skólann frá árinu 2009 og gegnt stöðu aðstoðarskólastjóra þar frá árinu 2012.
Auk þess kennir hún íslenskunámskeið fyrir börn sem eru nýflutt til landsins og gegnir stöðu menningarsendiherra pólska samfélagsins í Breiðholti.
Spurð af hverju henni finnist mikilvægt að sinna öllum þessum störfum sem að mestu fara fram utan hefðbundins vinnutíma segir Marta:
„Það er mikilvægt að búa til brú milli samfélaga. Það er ekki gott að fólk loki sig af í hópum og viti ekki hvað er í gangi í kringum það. Ég vildi vera hluti af svona brú og hjálpa fólki að finna upplýsingar á sínu móðurmáli og hjálpa börnum sem fæðast jafnvel hér að læra betri pólsku sem er grunnurinn að betri íslensku.“
Upp á síðkastið hefur skapast nokkur umræða um stöðu skóla í Breiðholti vegna hás hlutfalls nemenda sem ekki talar íslensku í hverfinu.
Marta segir ólíkt málumhverfi nemenda vissulega skapa áskoranir innan skólanna í Breiðholti. Hún telur stöðuna þó ekki vonlausa en tekur fram að það þurfi meiri tíma og mannafla til að sinna nemendunum.
„Þetta hefðbundna kerfi sem hefur örugglega verið í mörg ár á Íslandi virkar ekki þegar svona mikið hefur breyst. Sérstaklega í Breiðholti þar sem svona hátt hlutfall nemenda eru Íslendingar af erlendum uppruna,“ segir Marta.
„Þá þarf fleira fólk sem vill vinna með þessum hópi. Þetta er alveg hægt en það þarf að breyta aðferðum og kerfinu. Það þarf fleiri kennara í bekk og meiri íslenskukennslu fyrir börn sem eru nýkomin til landsins.“