Landris mælist enn á stöðugum hraða í Svartsengi. Hrauntungan norðan Sýlingarfells, sem rennur úr eldgosinu við Sundhnúk, heldur áfram að þykkna.
Eldgosið sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í rétt rúmar þrjár vikur. Áfram gýs úr einum gíg rétt austan Sundhnúks. Þetta kemur fram í færslu á vef Veðurstofunnar.
Hrauntungan norðan Sýlingarfells heldur áfram að þykkna en á þriðjudaginn 18. júní, fór hraunspýja frá henni yfir varnargarð L1 sem er norðaustur af Svartsengi, þó ekki skriði hún langt.
Hættumat er óbreytt og gildir að öllu óbreyttu til næsta þriðjudags 25. júní.
Eins og undanfarna daga mælist áfram landris á stöðugum hraða í Svartsengi þótt eldgos sé enn í gangi. Það má túlka þetta sem svo að kvikuflæði frá dýpi haldi áfram og sé meira en flæði frá gígnum og kvikusöfnun undir Svartsengi haldi því áfram eins og áður.
Gas frá eldgosinu við Sundhnúkagíga berst í dag til norðurs og norðvestur í átt að Reykjanesbæ og Vogum.