Félögin Wokon ehf. og EA17, sem bæði voru í fullri eigu Quang Lé, eða Davíðs Viðarssonar, hafa verið úrskurðuð gjaldþrota. Auglýsingar um gjaldþrotin eru birt í Lögbirtingablaðinu í dag, en þó er sitt hvor skiptastjórinn með þrotabúin.
Quang Lé sat í varðhaldi í 14 vikur vegna rannsóknar lögreglu á meintu mansalsmáli, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagðri brotastarfsemi, en var látinn laus í síðustu viku. Hann var hins vegar úrskurðaður í 12 vikna farbann.
Gjaldþrot félaganna kemur í kjölfar þess að lögregla frysti bankareikninga og kyrrsetti aðra fjármuni í tengslum við rannsókn á fyrirtækjum sem tengd eru Quang Lé. Vísir greindi fyrst frá gjaldþrotinu í dag.
Félögin hafa ekki skilað ársreikningum fyrir síðasta ár, en samtals voru þau með um 175 milljónir í eignir samkvæmt ársreikningi 2022. Var Wokon með jákvætt eigið fé um 60 milljónir, en EA17 neikvætt eigið fé upp á 6 milljónir.
Wokon ehf. var upphaflega í eigu Darko ehf. og HH81 ehf., en það voru félög í eigu Ísabellu Ósk Sigurðardóttur og Harðar Harðarsonar, en Ísabella er systir Kristjáns Ólafs Sigríðarson, sem var stofnandi og í forsvari fyrir samnefnda veitingastaði og í stjórn félagsins.
Áður hafði Quang Lé átt hlut í tveimur Wok on veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og voru fyrir utan starfsemina sem Kristján Ólafur var með.
Fyrirtækið var síðar selt til Quang Lé, en það er eitt af fjölmörgum veitinga- og fasteignafélögum sem voru í eigu hans. Meðal þeirra má nefna Vietnam Cuisine ehf., sem var tekið til gjaldþrotaskipta fyrr í þessum mánuði, Vietnam market ehf., NQ fasteignir, Vietnam Restaurant og Vy-þrif.
Wokon.ehf var með rekstur á 7 veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en að auki sáu utanaðkomandi rekstaraðilar um rekstur tveggja staða á landsbyggðinni.