Vantraust fellt: Jón sat hjá

Jón Gunnarsson er ekki sáttur við vinnubrögð Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur.
Jón Gunnarsson er ekki sáttur við vinnubrögð Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Samsett mynd/mbl.is/Óttar/Eggert

Tillaga um vantraust á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra hefur verið felld. Stjórn­arþingmaður úr Sjálf­stæðis­flokkn­um sat hjá þegar þing­heim­ur greiddi at­kvæði.

Þingmenn Miðflokk­sins lögðu fram van­traust­stil­löguna á Alþingi á þriðjudag en vantraustið tengist vinnubrögðum ráðherra við veitingu hvalveiðileyfis. Þingmeirihlutinn felldi vantraustið á Alþingi rétt í þessu. 

Bæði Jón Gunn­ars­son og Óli Björn Kára­son, sem báðir eru úr röðum Sjálf­stæðis­flokks­ins, hafa verið ósátt­ir við fram­ferði Bjarkeyj­ar í hval­veiðimál­inu. Jón sat hjá en allir aðrir stjórnarþingmenn sem voru viðstaddir greiddu atkvæði gegn van­traust­stil­lög­unni, þ.á.m Óli Björn.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók við matvælaráðueytinnu af Svandísi Svavarsdóttur, samflokkskonu …
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók við matvælaráðueytinnu af Svandísi Svavarsdóttur, samflokkskonu sinni í Vinstri Grænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkoma ráðherra „fordæmalaus“

„Framkoma ráðherra Vinstri grænna er fordæmalaus í þessu máli,“ sagði Jón í ræðustól á Alþingi í dag.

„Hagsmunum alþýðunnar, starfsfólks og fyrirtækja er fórnað á altari málstaðar sem engar forsendur eru fyrir,“ bætti Jón við en hann fór vægast sagt ófögrum orðum um vinnubrögð Bjarkeyjar.

Atkvæði féllu þannig að 23 greiddu með, 35 á móti og einn sat hjá. Þá voru tveir á fjarvistarskrá og tveir til viðbótar fjarverandi.

Pólitískt skammhlaup Miðflokksins

Þetta er fjórða van­traust­stil­lag­an sem lögð hef­ur verið fram á vorþingi, og sú þriðja á hend­ur mat­vælaráðherra

Miðflokksmenn segja ráðherra ekki hafa gætt að máls­hraðaregl­um þegar hún afgreiddi hvalveiðileyfið. Þá hefði hún heldur ekki farið að ráðlegg­ing­um sér­fræðinga sinna í ráðuneyt­inu þegar hún á endanum heimilaði veiðaranar, en einvörðungu til eins árs.

Bjarkey kall­aði van­traust­stil­lög­una á hend­ur sér póli­tískt skamm­hlaup Miðflokks­ins sem sé til þess eins að veiða at­kvæði og skapa sundrung í ríkisstjórninni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert