Af hverju að „djöfla þessu í gegn“ núna

Guðmundur Ingi ósáttur við flumbrugang í tengslum við frumvarp um …
Guðmundur Ingi ósáttur við flumbrugang í tengslum við frumvarp um breytingu á húsaleigulögum mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, er ekki allskostar sáttur með vinnubrögð í kringum frumvarp um breytingu á húsaleigulögum. „Af hverju erum við að djöfla þessu í gegn með látum núna?“ spyr Guðmundur.

Taka á frumvarpið fyrir til atkvæðagreiðslu á þingfundi í dag, en líkt og mbl.is greindi frá í dag gera ríkisstjórnarflokkarnir ráð fyrir að samþykkja 60 stjórnarfrumvörp á lokadögum þingsins og eru húsaleigulögin þar á meðal, en með breytingum.

Hann segir frumvarpið engan veginn nógu vel unnið, það vanti upp á bakgrunnsvinnu og að ekki sé búið að fara nægjanlega vel yfir umsagnir.

Bæta stöðu leigjenda á kostnað leigusala

Tilgangurinn eigi að vera að bæta leigumarkaðinn og stöðu leigjenda. Ekki eigi að bæta stöðu leigjenda á kostnað leigusala. Að með frumvarpinu sé verið að herða tökin á leigusölum allt of mikið. Of stífar kröfur gætu orðið til þess að þeir hætti að leigja og þá verði skortur á leigumarkaði.

Taka átti umræðu um breytinguna í morgun hjá velferðarnefnd en hætt var við fundinn.

Fjallað hefur verið um frumvarpið í fréttum mbl.is en mjög skiptar skoðanir eru á gagnsemi þess og því hvaða afleiðingar breytt húsaleigulög kunni að hafa fyrir almenna leigumarkaðinn.

Tugir umsagna og ekkert unnið úr þeim

Að sögn Guðmundar hefði þurft að byrja vinnuna miklu fyrr. „Við erum búin að hafa nógan tíma í vetur til þess að gera þetta vel en einhverra hluta vegna eru alltaf sömu vinnubrögðin. Allt sett á fullt síðustu dagana og þá fer þetta í tóma vitleysu vegna þess að þá ræður enginn við neitt.“ Hann bætir því við að ríkisstjórnin reyni að ná frumvarpinu í gegn vegna kjarasamninga.

Tugir umsagna hafa borist um frumvarpið þar sem fram koma mismunandi sjónarhorn sem, að sögn Guðmundar, þurfi að taka tillit til. Sumir eru hræddir um að leigumarkaðurinn fari í frost, aðrir segja frumvarpið gott. Það er heil gjá á milli skoðana fólks.

Velferðarnefnd hefur ekki haft tíma til að fara yfir umsagnirnar í sameiningu né þá til að ræða málin.

Tímasóun og kann að valda tjóni

Þá telur hann tímasóun að leggja fram svo illa unnið frumvarp í þinginu því verði það ekki samþykkt þurfi að taka það fyrir aftur á næsta ári, fá nýjar umsagnir o.s.frv. Hann segir vinnubrögðin vera flumbrugang og líkir þeim við að grafa alltaf sama skurðinn án þess að verða neinu ágegnt.

Hann óttast að frumvarpið kunni að valda meira tjóni en að hjálpa miðað við þær umsagnir sem hafa borist. Þá tekur hann dæmi um mistökin við breytingu á almanntryggingalögunum sem leiddu til dómsmáls og varð að milljarða kostnaði fyrir ríkið.

„Það getur verið dýrt að klúðra svona hlutum,“ segir Guðmundur. „Ef svona vinnubrögð væru úti í bæ þá segi ég bara guð hjálpi þjóðinni, hvernig á að láta þjóðfélagið virka?“ bætir hann við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert