Ein hrauntunga stöðvuð og kæling hafin á næstu

Kæling á einni hraunspýju af tveimur.
Kæling á einni hraunspýju af tveimur. mbl.is/Eyþór

„Við höfum í raun náð að kæla þessa eystri spýju þannig hún hefur eiginlega ekkert hreyfst og nú er komið að því að taka næstu og reyna að kæla hana,“ segir Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri Rangárþings ytra.

Leifur leiðir fimm manna hóp sem var mættur klukkan hálf þrjú í nótt í hraunkælingu fyrir ofan Svartsengi en tvær hraunspýjur hafa verið að fikra sig yfir varnargarðana þar og þar af var ein spýjan tvöföld.

Stóð kæling enn yfir þegar blaðamann bar að garði fyrr í dag.

Ekki vitað hvað hraunkæling verður lengi

„Það er lítil virkni í gosstöðinni sjálfri en það er enn þá hreyfing á kvikunni. Ég veit ekki hvað hún er lengi að kólna eftir að gos er hætt. Það getur alveg verið að þetta taki einhvern tíma og það er verið að vega og meta hvað á að vera með hraunkælingu lengi,“ segir Leifur þegar hann er spurður um lengd verkefnisins.

Bætir hann þó við að ekki sé vitað hvenær hann og aðrir slökkviliðsmenn teymisins fái pásu og hver taki þá við.

„Við verðum ekki hérna í marga sólarhringa án þess að sofa.“

Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri Rangárþings ytra.
Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri Rangárþings ytra. mbl.is/Eyþór

Fylgjast náið með hrauntungunum

Ásamt teyminu úr Rangárvallasýslu voru einnig mættir tveir slökkviliðsmenn til að leysa af frá Árnessýslu og segir Leifur að um sé að ræða mikið samvinnuverkefni.

Slökkviliðsmaður teymisins úr Rangvallársýslu, Bjarki Hafberg Björgvinsson, segir mögulega veika von um að reyna að slökkva í eldgosi með vatni en allt megi reyna – um sé að ræða tilraun sem gæti hjálpað.

„Hér var hrauntunga hérna við hliðina á okkur og hún stoppaði þannig við náðum að kæla hana niður en það er spurning hvort hún muni leita þá eitthvað annað í staðinn,“ segir Bjarki og bætir við að fylgst verði náið með hrauninu og hreyfingu þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert