Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellsbæ byrjaði í lok maí sl. með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ fyrir iðkendur með sérþarfir og lofar tilraunin góðu, að sögn Árna Braga Eyjólfssonar íþróttafulltrúa. „Verkefnið er í raun fyrir alla sem eru með fötlun, hömlun eða röskun af einhverju tagi og vilja koma og spila fótbolta og fylgja æfingum þjálfara.“
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, sem er fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og lék 102 A-landsleiki, flutti heim í ársbyrjun 2023 og var þá ráðin yfirþjálfari í knattspyrnu hjá Íþróttafélaginu Ösp, sem starfar í þeim tilgangi að efla hreyfingu og íþróttaiðkun hjá fólki með sérþarfir. Hún færði starfið inn í Ungmennafélagið Stjörnuna í Garðabæ undir merkinu Stjarnan/Ösp og hefur það gengið mjög vel, eins og fram kom hér í Morgunblaðinu í fyrradag.
Tony Presley, yfirþjálfari Aftureldingar og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna, vann sem sjálfboðaliði hjá Gunnhildi Yrsu og kynnti verkefnið í Aftureldingu. „Tony sá tækifæri til að byrja með sambærilegt verkefni í Mosfellsbæ og lét verkin tala,“ segir Árni Bragi.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.