Hlakkar til samstarfs við bæjarbúa

Gerður er ekki ókunnug stjórnsýslunni í Vesturbyggð en hún starfaði …
Gerður er ekki ókunnug stjórnsýslunni í Vesturbyggð en hún starfaði sem skrifstofustjóri hjá Tálknafjarðarhreppi áður en hún færði sig yfir til Vesturbyggðar árið 2016 þar sem hún tók við sem verkefnisstjóri samfélagsuppbyggingar áður en hún tók svo við sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og sem staðgengill bæjarstjóra árið 2019. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýráðinn bæjarstjóri í Vesturbyggð, Gerður Björk Sveinsdóttir, segist hafa þurft smá tíma til að melta það hvort hún hygðist sækjast eftir starfinu. Að endingu þótti henni tækifærið spennandi og kveðst hún hlakka til að takast á við verkefnin fram undan.

Gerður Björk segist ætla að leitast við að verða nokkuð …
Gerður Björk segist ætla að leitast við að verða nokkuð viðmótsþýður bæjarstjóri og almennileg við þá sem til hennar leita. Mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

Gerður er ekki ókunnug stjórnsýslunni í Vesturbyggð en hún starfaði sem skrifstofustjóri hjá Tálknafjarðarhreppi áður en hún færði sig yfir til Vesturbyggðar árið 2016 þar sem hún tók við sem verkefnisstjóri samfélagsuppbyggingar áður en hún tók svo við sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og sem staðgengill bæjarstjóra árið 2019.

Gerður segir í samtali við Morgunblaðið að hún gangi nú í gegnum bæjarstjóraskipti í þriðja sinn. „Það líður alltaf smá tími frá því að kosið er og þar til nýr bæjarstjóri tekur til starfa, þannig að ég þekki starfið ágætlega og hef gegnt því áður.“

Úr 14. sæti í bæjarstjórn

Gerður Björk er fædd í Reykjavík árið 1977 en fluttist á barnsaldri vestur í Stykkishólm þar sem hún gekk í grunnskóla. Hún hefur verið búsett í Vesturbyggð samfleytt síðan 2011. Hún er gift en maðurinn hennar er frá Patreksfirði og eiga þau tvö uppkomin börn og eitt á unglingsaldri. Gerður er viðskiptafræðingur með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun sem starfaði hjá Deloitte áður en hún hélt á Vestfirðina en hún hefur bætt við sig diplómanámi í opinberri stjórnsýslu.

Hún hefur aðeins snert á sveitastjórnarpólitíkinni áður er hún tók eitt sinn 14. sæti á lista fyrir sveitastjórnarkosningar og endaði í bæjarstjórn þar sem aðeins einn listi var í framboði.

Fyrstu vikurnar fari í að setja fólk inn í málin

Fyrstu vikurnar segir hún að muni fara í að setja fólk inn í málin sem eru í gangi í stjórnkerfinu. „Við erum með mörg stór mál í gangi eins og samgöngumálin, atvinnumálin og önnur brýn mál þar sem verið er að eiga við ríkisvaldið og praktísk mál í kringum sameininguna,“ segir Gerður sem var einmitt verkefnisstjóri yfir sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar sem gekk í gegn í vor en ákveðið var í vikunni að sameinað sveitarfélag muni bera heitið Vesturbyggð. Segir hún heilmikið mál fyrir nýkjörna fulltrúa að setja sig inn í málin og margt nýtt fólk sé að koma inn.

Gerður Björk segist ætla að leitast við að verða nokkuð viðmótsþýður bæjarstjóri og almennileg við þá sem til hennar leita. Hún gerir sér grein fyrir að hún geti aldrei verið allra en vonandi sem flestra og hlakkar til samstarfs við bæjarbúa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert