Stjórnvöld munu vísa úr landi 11 ára palestínskum dreng með hrörnunarsjúkdóm. Hann hlaut ekki alþjóðlega vernd hér á landi og til stendur að senda fjölskylduna til Spánar, en þar hefur hún heldur ekki fengið vernd að sögn aðstandenda.
Yazan Aburajab Tamimi og fjölskyldan fóru frá Palestínu vegna þess að Yazan er með duchenne-heilkenni, sem er vöðvarýrnunarsjúkdómur. Hann hefur búið hér á landi í rúmt ár en honum og fjölskyldu hans verður vísað úr landi í byrjun júlí.
„Hann er hættur að geta gengið, þarf hjálp við að anda, þarf hjartalyf. Þetta hefur gríðarleg áhrif og hann fer mikið versnandi út af alls kyns álagi,“ segir Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir, aðstandandi Yazans og meðlimur No Borders á Íslandi, í samtali við mbl.is. Hún bendir á að einkenni Yazans séu afar slæm miðað við jafnaldra.
Fjöldi félagasamtaka hefur mótmælt brottvísun Yazans. Má þar nefna ÖBÍ, Duchene-samtökin, Einstök börn, Tabú, Sólaris og síðan No Borders. Í dag fundaði Kristbjörg með fulltrúum barnamálaráðuneytisins þar sem henni var tjáð að ráðuneytið gæti ekkert gert í máli Yasans.
Þegar Yazan bjó í Palestínu þurfti hann að sækja læknisaðstoð til Ísraels en Kristbjörg bendir á að fjölskyldunni var ekki alltaf heimilt að fara til Ísraels. Vegna veikinda sinna hafi Yazan heldur ekki mátt ganga í skóla í heimalandinu.
Þegar fjölskyldan hélt til Íslands millilenti hún á Spáni en vegna verkfalls þurfti hún að stoppa þar í þrjá daga. Kristbjörg segir að fingraför hafi þess vegna verið tekin af fjölskyldunni. Það sé eina ástæðan fyrir því að þeim sé vísað brott til Spánar.
„Þau sóttu ekki um vernd, sóttu ekki um neitt á Spáni. Stoppuðu vara vegna þess að það var verkfall. Ef það hefði ekki verið verkfall þá hefði þau fara beint til Íslands,“ segir Kristbjörg.
„Hérna getur hann fengið aðstoð sem hann þarf, skóla og sjúkraþjálfun,“ segir Kristbjörg og nefnir einnig hjartalækna, taugalækna öndunarfæralækna – „eitthvað sem hann hefur ekki haft aðgang að allt sitt líf.“
„Fyrsti lögmaðurinn sem þeim er úthlutað, þeim var úthlutað honum af ríkinu. Hann skilaði ekki inn fullnægjandi gögnum,“ segir Kristbjörg.
Vegna þessara mistaka lögfræðingsins hafi komið fram í fyrsta úrskurði um neitun og vernd að Yazan fengi ekki nægilega læknisþjónustu á Íslandi. „Sem er bull,“ segir aðgerðarsinninn.
„Við erum með gögn sem sýna fram á að hann er að fá læknisfræðiaðstoð á Íslandi reglulegam,“ bætir hún við.
Fjölskyldan leitaði því á náðir annars lögmanns sem sendi ný gögn sem áttu að sýna fram á alvarleika sjúkdómsins og þá þjónustu sem Yazan hefur. En samt synjaði kærunefnd útlendinga málinu frá og er því endanlega búið að neita fjölskyldunni um vernd á Íslandi. Það á því að brottvísa fjölskyldunni í byrjun júlí.
No Borders auk annarra félagasamtaka hafa efnt til mótmæla á sunnudag, vegna brottvísunarinnar.
„Það er auðvitað til þjónusta á Spáni en fluttningurinn sjálfur hefur gríðarleg áhrif,“ segir Kristbjörg og bendir á að helsta dánarorsök drengja með duchene sé hnjask.
Hún hefur þekkt fjölskylduna í nokkra mánuði og segir að stressið og streitan sem hefur fylgt ferlinu hafi valdið þeim bæði andlegum og líkamlegum skaða.
„Hann á erfitt með að anda, á erfitt með að kyngja. Hann vill ekki taka lyfin sín hann er svo þunglyndur,“ segir hún um Yazan og bætir við.
„Hann er búinn að segja okkur persónulega að hann haldi að enginn á Íslandi vilji hafa hann hérna. Mótmælin geta sýnt að fólkið á Íslandi stendur með honum.“
Eftir að mál Yazan var tilkynnt til barnaverndar er það komið á borð barnamálaráðuneytisins.
Kristbjörg gekk á fund hjá fulltrúum ráðuneytisins um kl. 15 í dag til þess að óska eftir því að ráðuneytið beiti sér í máli Yazans. „Þau sögðust ekkert geta gert,“ segir Kristbjörg.
„Það átti að vísa tveimur palestínskum drengjum úr landi nú í desember og þau [í barnamálaráðuneytinu] kölluðu eftir gögnum í málinu og stöðvuðu brottvísunina á þeim. Þannig að þau hafa gert þetta áður.“