Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra segir það þyngra en tárum taki hversu margir hafi látið lífið í umferðinni í ár. Hún telur ástand vega á Íslandi vera áhyggjuefni.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær, þar sem Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði hvernig ráðherra hygðist axla ábyrgð á þeim alvarlegu og fjölmörgu bílslysum sem hafa orðið víðs vegar um landið.
Gagnrýndi hann einnig Svandísi fyrir að „slá samgönguáætlun út af borðinu“ rétt fyrir þinglok. Í vikunni var greint frá því að fresta ætti afgreiðslu samgönguáætlunar 2024-2038 fram að haustþingi.
„Það er alveg ljóst að það er eitthvað mikið að vegakerfinu okkar,“ sagði Guðmundur, en það sem af er ári hafa 15 látið lífið í umferðinni. Í fyrra nam fjöldi látinna 8, og 9 árið þar á undan.
Guðmundur nefndi í því samhengi nýlegt rútuslys á Öxnadalsheiði en tveimur er enn haldið sofandi eftir slysið. Á vettvangi var varað við bikblæðingum en Vegagerðinni hafa borist tilkynningar um sams konar blæðingar víðs vegar að af landinu, m.a. á Vestfjörðum.
„Að nota matarolíu til að djúpsteikja vegakerfið um allt land með tilheyrandi slysahættu er gjörsamlega fáránlegt,“ sagði Guðmundur enn fremur og benti á að það þyrfti afar lítið hitastig svo að vegir tækju að blæða.
„Hvað hyggst hæstvirtur ráðherra [innviðaráðherra] gera til að gera vegakerfið öruggt og ætlar hún að hætta að djúpsteikja vegi um allt land?“ spurði hann og hlátur heyrðist úr þingsal.
Þegar Svandís steig í pontu tók hún fram að fjöldi andláta í umferðinni það sem af er ári væri þyngri en tárum tæki. Tók hún undir orð Guðmundar um að ástand vega á Íslandi væri áhyggjuefni.
„En það er samt alveg ljóst að síðustu ár eru þannig að aukning hefur orðið verulega á álagi á vegakerfið. Þannig að við þurfum að mæta þessu með hlutfallslega meira viðhaldi heldur en hefur verið í gegnum árin,“ sagði Svandís.
Hún bætti við að þetta aukna álag væri áþreifanleg afleiðing af stórauknum umsvifum í samfélaginu.
„Ferðaþjónusta hefur stóraukist og ég tala nú ekki um þungaflutninga á vegunum sem hafa stóraukist líka og hafa valdið sliti langt umfram það sem við höfum áður séð,“ sagði hún.
„En þetta er skuggahliðin á því og við því þarf að bregðast og ég er sammála hæstvirtum þingmanni um það að á það þurfum við að leggja áherslu af myndarbrag og ekki síst í þágu umferðaröryggis.“