Segir svar dómsmálaráðherra vonbrigði

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir svar dómsmálaráðherra vonbrigði
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir svar dómsmálaráðherra vonbrigði Arnþór Birkisson

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að svar Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn hennar um íslenskupróf fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið mikil vonbrigði. 

Fyrirspurn hennar beinist að því hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir breytingum á reglugerð nr. 1129/2008, til að tryggja reglulegan aðgang að íslenskuprófum fyrir innflytjendur í öllum landshlutum. 

Í reglugerðinni er kveðið á um að einstaklingur sem öðlast íslenskan ríkisborgararétt þurfi að hafa staðist próf í íslensku. Þá skuli halda prófið að minnsta kosti tvisvar á ári í Reykjavík eða í nágrenni. Að auki er heimilt að halda prófið annars staðar á landinu. 

Hafi neikvæð áhrif á atvinnulífið

Líneik hefur áhyggjur af því að innflytjendur sem eru búsettir langt frá prófstað þurfi að gera sér langa ferð um miðjan vetur í alls konar veðri. 

Hún segir það geta haft neikvæð áhrif á margt, þar á meðal innflytjendurna sjálfa og atvinnulífið þar sem starfsmenn geta misst nokkra daga úr vinnu til að komst í prófið.

Hún vænti þess að dómsmálaráðherra setji á lágmarksskyldu um dreifingu prófstaða og að próf verði haldin að lágmarki í hverjum landshluta en á síðasta ári voru prófin haldin á haustin í Reykjavík og á Akureyri. 

Að sögn Líneikur er nauðsynlegt að prófin séu haldin tvisvar á ári í landshlutum þar sem eftirspurn er. Þá telur hún það vera nauðsynlegt að prófin verði haldin á Vesturlandi og Austurlandi til að mæta þörfum innflytjenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert