„Það sem ég veit um þessa breytingu er að skráningarskyldan, hún verður tekin út,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, um frumvarp um breytingar á húsaleigulögum. En að annað í frumvarpinu sé vitaskuld til bóta.
Að sögn Finnbjörns er ASÍ mjög ósátt við að skráningarskyldan hafi verið tekin út en hún hefði átt að tryggja betri upplýsingar um leigumarkaðinn. Þar með væri auðveldara að vinna með þau vandamál sem snúa að markaðnum.
Finnbirni er ekki kunnugt um að önnur breyting hafi verið gerð á frumvarpinu.
Hann vill meina að það sé mesta furða að verið sé að krukka í frumvarpið nú undir þinglok miðað við hve lengi málið er búið að vera í vinnslu meðal fulltrúa ríkisstjórnarinnar og allskonar hagsmunaaðila, sem hafa togast á um það. Málsmeðferðin sé óásættanleg.
Líkt og samið var í síðustu samningum taldi ASÍ að loforð væri fyrir því að frumvarpið færi óbreytt í gegnum þingið. Að öll grunnvinna hefði átt sér stað og að stórra breytinga væri ekki þörf. „Þannig að þetta er mjög sérstakt að þetta skuli gerast með þessum hætti.“
Einhver hagsmunaöfl vilja ekki sjá þessa skráningaskyldu, að sögn Finnbjörns en hann veltir því fyrir sér hverra hagsmuna verið sé að gæta.