Lítil sem engin virkni hefur verið í gígnum við Sundhnúk frá því um klukkan 4.00 í morgun og því líklegt að gosið sé á lokastigi ef því er þá ekki lokið.
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is og útskýrir að virknin í gígnum hafi dottið niður auk þess sem dregið hefur úr hraunflæði.
Þorvaldur segir þó einhverja pínulitla virkni hafa verið í gígnum fyrr í dag, sem geti þýtt að virknin nái sér upp aftur, en hann telur hina sviðsmyndina samt sem áður líklegri. „Að þetta sé bara að fjara út.“
Spurður hvort hann telji líkur á öðrum atburði á svæðinu, sérstaklega í ljósi þess að land rís enn á svæðinu, auk þess sem Þorvaldur hefur áður sagt að hann reikni ekki með öðrum atburði á svæðinu svarar hann:
„Ástæðan fyrir því að ég segi það er að við hvern atburð hefur landris orðið hægara og hægara og hægara. Það tekur lengri tíma að fylla geyminn sem þýðir að það dregur úr flæðinu að neðan.
Til útskýringar segir Þorvaldur að flæðið milli grunnu og stóru kvikugeymslunnar hafi minnkað mikið síðan í nóvember.
„Flæðið þarna á milli var rúmir níu rúmmetrar í nóvember, en núna er það komið undir þrjá. Ef það heldur áfram að draga úr því með þessum hraða þá verðum við komin niður í núll í lok ágúst og í júlí verðum við komin niður í tvo rúmmetra á sekúndu. Þá er nú orðið ansi erfitt að halda þessu.“
Þannig að við erum ekki að fara að fá eitt gos á mánuði út árið?
„Nei, það held ég ekki. Ekki eins og staðan er núna. Ekki nema eitthvað breytist, ég held að þetta lognist bara útaf í lok sumars,“ segir Þorvaldur og bætir við:
„Þannig að það eru vonandi góðar fréttir fyrir Grindvíkinga. En þetta þýðir ekki það að eldgosatímabilið sé búið vegna þess að ef það slokknar á þessari rein þá er mjög líklegt önnur rein fari af stað.“
Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar kemur jafnframt fram að virkni fari minnkandi í gígnum og að hraunrennsli frá honum sé ekki lengur sjáanlegt á yfirborði. Það megi þó vera að enn sé hraunrennsli frá gígnum í lokuðum rásum.
Þá segir jafnframt að á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar í Grindavík megi sjá að gosórói fari minnkandi.
„Minnkandi virkni í gígnum og lækkun í gosóróa bendir til þess að þessu eldgosi gæti lokið á næstunni en þó er óvissa um nákvæmlega hvenær. GPS mælingar sýna enn landris á Svartsengissvæðinu. Það er vísbending um að þrýstingur í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi haldi áfram að byggjast upp, þótt hraði landrissins sé minni en áður,“ segir í tilkynningunni.