Margrét Helga Aðalsteinsdóttir leigubílstjóri segir tengdaföður sinn ekki hafa átt góðan morgun er hann hugðist fara í sína daglegu gönguferð í Árbænum í morgun.
Sá hann þá að málningu hafði verið úðað yfir bílinn hans og öll fjögur dekkin sprengd.
Bílinn hefur verið í eigu tengdaföður hennar frá árinu 1964 og er í miklu uppáhaldi.
Að sögn Margrétar hafði fjölskyldan samband við lögreglu. Hún segir lögregluna ekki hafa talið neina ástæðu til að koma og sjá ummerkin, þar sem gerandinn var ekki staðinn að verki.
Hún segir að tryggingafélagið hafi tjáð fjölskyldunni að hún bæri tjónið, þar sem bíllinn er ekki kaskó-tryggður.
„Þó svo að hann sé fulltryggður að öllu öðru leyti þá virðast tryggingarnar ekki taka þátt í að bæta skemmdarverk,“ segir Margrét í samtali við mbl.is.
Margrét segir bílinn þegar hafa gengið í gegnum margt, þar á meðal bílveltu og nokkra árekstra.
„Hann fer aftur á götuna, hvenær sem það verður.“