Ákærður fyrir 170 milljóna skattalagabrot

Embætti héraðssaksóknara.
Embætti héraðssaksóknara. mbl.is/Hjörtur

Héraðssaksóknari hefur höfðað mál gegn karlmanni sem er sagður hafa komið sér undan því að greiða skatta og önnur opinber gjöld sem nema um 170 milljónum króna, í tengslum við rekstur einkahlutafélags sem nú sé gjaldþrota.

Í ákærunni kemur fram að maðurinn hafi ekki greitt skatt og/eða önnur opinber gjöld við rekstur einkahlutafélags, þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra, meðal annarra hlutverka, frá júlí 2021 til ágústmánaðar 2022. Þá hafi rúmlega 58 milljónum af þessum 170 verið haldið eftir af launum starfsmanna en opinber gjöld ekki greidd með fjárhæðinni eins og til sé ætlast. Flokkist þetta sem brot gegn almennum hegningarlögum og skattalögum.

Farið fram á atvinnurekstrarbann

Óskað er eftir því að maðurinn hljóti dóm fyrir verknaðinn og verði látinn greiða allan sakarkostnað. Þar að auki verði honum meinað að „stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar í slíku félagi í þrjú ár.“

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert