Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig vegna umbrota á Reykjanesskaganum. Ákvörðunin var tekin í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna.
Eldgosinu á Sunhnúkagígaröðinni sem hófst 29. maí virðist nú lokið.
Áfram er rennsli í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð norðan Sýlingarfells en búast má við að rennslið stöðvist á næstunni.
„Mest virkni er í hrauntungunni lengst til vesturs sem hefur færst áfram um nokkra metra og þykknað á síðustu klukkustundum,“ segir í tilkynningu almannavarna.
Slökkvilið hafa undanfarna daga reynt að hemja hraunflæðið, meðal annars með vinnuvélum og hraunkælingu.
Hraunkælingunni hefur nú verið hætt og fara næstu dagar í að meta hvort og þá mögulega hvernig hún virkaði.
„Óhætt er að segja að vinnan við hraunkælinguna hefur skilað mikilli reynslu sem nýtist ef til hennar kemur aftur í framtíðinni.“
Vinnunni er þó ekki enn lokið þar sem halda þarf áfram að styrkja varnargarðana við Svartsengi. Strax á mánudag verða verkfærin tekin upp aftur og vinnuvélar ræstar.
„Búið er að gera minni varnargarð fyrir innan þann sem fyrir var og er hraunið komið að honum en þó ekki honum öllum.“