Hafnfirðingar hafa margir áhyggjur af umfangsmiklu loftslagsverkefni Carbfix. Fyrirtækið hyggst koma upp tíu borteigum nálægt íbúabyggð í Hafnarfirði svo hægt sé að dæla innfluttum koltvísýring niður í jörðina.
„Okkur finnst að þetta tilraunaverkefni, í þessari stærðargráðu, henti ekki að vera svona nálægt byggð,“ segir Hafnfirðingurinn Ragnar Þór Reynisson í samtali við mbl.is en hann stendur fyrir undirskriftasöfnun á Íslandi.is og Facebook-hóp þar sem áformunum er mótmælt.
Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði samþykktu þann 17. janúar að hafin yrði vinna við breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar vegna stórra framkvæmda Carbfix. Verkefnið kallast Sódastöðin, en er sennilega betur þekkt sem Coda Terminal. Verkefnið er eitt umfangsmesta loftslagsverkefni á Íslandi, að sögn Carbfix.
Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa þegar gagnrýnt staðsetningu borteiganna í umsögnum sínum um málið.
Markmið Sódastöðvarinnar er að binda árlega um þrjár milljónir tonna af koltvísýring í jörðu niðri við Straumsvík á öruggan hátt.
Basalt, algengasta bergtegundin á Íslandi, getur bundið koltvíoxíð á náttúrulegan hátt en það tekur þónokkurn tíma. Sódastöðin á aftur á móti að flýta binditímann.
Sódastöðin virkar þannig að koltvísýringur frá erlendum stórfyrirtækjum er fluttur með skipum til landsins og leystur upp í vatni, sem er síðan dælt niður í berglög innan bæjarmarka Hafnarfjarðar.
Þar verður koltvísýringurinn geymdur og þannig á basíska bergið að binda koltvísýringinn á mun skemmri tíma.
Markmiðið er að fullbyggð geti Sódastöðin bundið 3 milljónir tonna af koltvísýringi á ári, meira en allur íslenskur iðnaður losar samanlagt. Árið 2022 hlaut Carbfix 16 milljarða styrk fyrir Sódastöðina frá nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins.
Til að bregðast við mótmælahópnum hefur Carbfix stofnað sinn eigin Facebook-hóp: „Coda Terminal í Straumsvík – Upplýsingasíða og umræður“.
„Við erum ekki á móti verkefninu, bara staðsetningunni,“ tekur Ragnar fram sem telur að betur hefði mátt byrja verkefnið á öðru svæði, fjær íbúabyggð, áður en ráðist yrði í framkvæmdir í Hafnarfirðinum.
Hann gagnrýnir einnig að verkefnið hafi verið tekið fyrir eins og hvert annað skipulagsverkefni, þrátt fyrir að það sé mun stærra.
„Stjórnsýslan er kannski þannig byggð að þetta fer í gegn um ferli, umhverfismatsskýrsla gerð og lesin, síðan geta verið lagðar til umsagnir í miðju ferli. Almennir borgarar og íbúar eru ekkert inni í skipulagsmálum,“ segir Ragnar og bendir á að verkefni af þessari stærðargráðu hafi aldrei áður verið framkvæmt á Íslandi.
Hann telur að óvissa ríki enn um árangur og afleiðingar verkefnisins á íbúa og náttúru og skorar á bæjarstjórnina að hverfa frá áætluninni á þessu svæði eða leggja ákvörðunina í hendur bæjarbúa með íbúakosningu.
„Þetta hér telst ekkert með sem venjulegt skipulagsverkefni. Þetta er allt annað,“ segir Ragnar. „Þetta á sér engin fordæmi.“
Verkefnið er nú í umsagnaferli og verður fram að 5. júlí. Síðan tekur skipulagsstofnun ákvörðun um hvort verkefnið verði heimilað.
En til þess að ganga í þetta verkefni þarf að stækka hafnarsvæðið í Straumsvík. Efnisþörf fyrir framkvæmdirnar í heild sinni nemur allt að 2 milljónum rúmmetra. Sú efnistaka mun að mestu eiga sér stað í Rauðamelsnámu í Hafnarfirði, en þangað verða sótt allt að 1,3 milljónir rúmmetrar af efni.
Fréttin uppfærð klukkan 20.50:
Upphaflega var haft eftir Ragnari að í umhverfismati Eflu kæmi fram að hætta væri á leka vatns inn í íbúðagrunna ef grunnvatn myndi hækka. Þetta er ekki í samræmi við það sem fram kemur í umhverfismatinu.
Á svæðinu umhverfis Ástjörn liggur grunnvatnsborð á um 5-10 m dýpi en þar reiknast allt að 25 cm hækkun grunnvatnsborðs við fjórða áfanga Coda Terminal. Samkvæmt loftmyndum virðast flest mannvirki á svæðinu vera grunduð á jarðvegspúðum sem líklega eru byggðir á hraunlagi. Í því tilviki hefur hækkun grunnvatnsborðs engin áhrif. Vallahverfið og iðnaðarhverfið eru byggð upp úr aldamótum og því eru mannvirkin byggð samkvæmt þeim reglum og stöðlum sem eru meira og minna í gildi í dag. Staðlarnir gera ráð fyrir að lagt sé dren í kringum öll mannvirki sem spornar gegn leka inn í kjallara og að gert sé ráð fyrir óvissu í burðarþoli jarðvegs í öryggisstuðlum bygginga. Einnig er berggrunnurinn á svæðinu almennt gljúpur svo vatnið er líklegra að leita til annarra átta en að byggja upp þrýsting við botnplötur bygginga.