Innheimta bílastæðagjalda hafin í Landmannalaugum

Svæðið er opið allan sólarhringinn.
Svæðið er opið allan sólarhringinn. Ljósmynd/Víkingur Magnússon

Bókunarkerfi og bílastæðagjald við Landmannalaugar urðu að veruleika á fimmtudaginn. Bóka þarf bílastæði fyrirfram og greiða fyrir það 450 krónur á álagstíma, eða kl. 8-15. Landvörður að Fjallabaki segir fyrsta daginn hafa gengið vel og að ekki hafi þurft að vísa neinum frá.

„Þetta hefur gengið mjög vel og alveg betur en ég sjálfur átti von á,“ segir Víkingur Magnússon, landvörður að Fjallabaki.

Álagstími hefur verið meiri en innviðir ráða við

Svæðið er opið allan sólarhringinn og hægt er að leggja á bílastæðinu á öðrum tíma en ofangreindum álagstíma án þess að þurfa að bóka stæði eða greiða fyrir það gjald.

Rútubílstjórar og ferðaskipuleggjendur þurfa ekki að bóka stæði en munu þurfa að greiða gjald á álagstímanum.

Spurður hvort að vísa hafi þurft fólki frá svæðinu segir Víkingur svo alls ekki hafa verið:

„Það er komið þak á fjölda bíla, en umferðin hefur ekki náð því hingað til og við eigum ekki von á því, nema einhverja daga í sumar,“ segir hann.

Hann segir gjaldið koma til með að halda uppi bókunarkerfinu og þjónustu á svæðinu, en á vef Umhverfisstofnunnar segir að um álagsstýringu sé að ræða og að bílaumferð inn í Landmannalaugar á álagstíma hafi verið meiri en innviðir réðu við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert