Kaupa búnað fyrir 450 milljónir

Tækin eru ekki til á Íslandi sem yfirvöld hafa ákveðið …
Tækin eru ekki til á Íslandi sem yfirvöld hafa ákveðið að kaupa. mbl.is/Eyþór

Yfirvöld hafa ákveðið að kaupa stærri tækjabúnað sem nýtist við hraunkælingu og til að slökkva í gróðureldum. Mun kostnaðurinn hlaupa á 450 milljónum króna.

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is.

Búnaðurinn ekki langt undan

Eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina sem hófst í maí virðist nú vera lokið. 

Slökkviliðsmenn hafa unnið hörðum höndum að því undanfarna daga að dæla köldu vatni á tvær hraunspýjur sem komust yfir varnargarða við Svartsengi.

Spurð hvort hraunkælingin hafi náð að hafa mikil áhrif á rennsli hraunsins segir Hjördís að of snemmt sé að segja til um það.

„En það var talið að þetta væri að virka en það getur enginn nákvæmlega sagt til um það hvort það hafi verið hraunkælingin eða bara að hraunrennslið hafi minnkað.“

Tæki sem eru ekki til á Íslandi

Að sögn Hjördísar tóku yfirvöld ákvörðun um að kaupa stærri tækjabúnað, sem kosta mun um 450 milljónir, til að takast á við verkefni eins og þessi.

„Svo er náttúrulega núna búið að taka ákvörðun um að kaupa miklu stærri tæki sem eru ekki til á Íslandi og það væri ekki gert nema af því að fólk hefur trú á að þetta muni mögulega virka en þau tæki verður líka hægt að nota gegn gróðureldum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka