Launahækkanir hafi kynt undir verðbólgu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/María Matthíasdóttir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir að miklar launahækkanir að undanförnu hafi kynt undir verðbólgunni í landinu, sem nú stendur í 6,2%.

Í viðtali í Spursmálum á mbl.is neitar Lilja því að stóraukin ríkisútgjöld á liðnum árum séu meginorsök þeirrar þrálátu verðbólgu sem hagkerfið hefur átt við að etja síðustu misserin. Þegar litið sé til aukinna ríkisútgjalda sé orsökina aðallega að finna í auknum launakostnaði á vinnumarkaðnum.

Verðbólgan á niðurleið

Í Spursmálum segist Lilja hafa fulla trú á að verðbólgan sé á niðurleið. Á sama tíma horfi íslenskt hagkerfi upp á samdrátt vegna minnkandi eftirspurnar fólks eftir ferðum til Íslands. Lilja vill ekki kveða fast að orði um að launahækkanir í ferðaþjónustu hafi verið ríflegar en hótel- og veitingahúsaeigendur hafa kvartað undan síhækkandi launakostnaði. Ráðherra telur þó ljóst að launakostnaður sé hluti af því sem hafi áhrif á samkeppnishæfni Íslands í ferðaþjónustu.

Leita tækifæra hér á landi

Í Morgunblaðinu í dag er einnig rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, um þróunina á vinnumarkaði. Ingólfur segir viðbúið að Evrópubúar muni áfram leita atvinnutækifæra á Íslandi á meðan hér bjóðist betri lífskjör en víða í álfunni.

„Á meðan við erum að bjóða hærri laun og meiri efnahagslega velmegun en löndin í kringum okkur þá höfum við sterka samningsstöðu hvað þetta varðar. Þetta hefur nýst okkur vel undanfarið þar sem hagvöxturinn hefur verið hraður og vinnuaflsþörf hans hefur verið mætt að stórum hluta með erlendu vinnuafli,“ segir Ingólfur og nefnir þar atvinnugreinar á borð við byggingariðnað, hugverkaiðnað og ferðaþjónustu.

Ingólfur bendir á að þetta geti hæglega snúist við í niðursveiflu, líkt og gerðist í efnahagshruninu haustið 2008.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert