Samfylkingin hefur lagt mannréttindin til hliðar

Helga Vala Helgadóttir, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, segir að Samfylking Kristrúnar Frostadóttur hafi sett mannréttindabaráttuna til hliðar í sinni baráttu. Hið sama eigi við um umhverfis- og loftslagsmál.

Er hún harðorð í garð forystunnar. Mikla athygli vakti í september síðastliðnum þegar Helga Vala sagði skilið við þingmennsku og sneri sér að lögmannsstörfum. Var það talið til marks um ágreining eða áherslumun milli hennar og Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar.

Þessi meinti viðsnúningur flokksins er til umfjöllunar í nýjasta þætti Spursmála þar sem Helga Vala mætir til leiks ásamt Bergþóri Ólasyni, þingflokksformanni Miðflokksins.

Orðaskiptin í Spursmálum

Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig í textanum sem ritaður er upp hér að neðan:

Nú höfum við tekið eftir því að í fleiri og fleiri málum sem Kristrún tekur á þá lendir hún í vandræðum innanflokks. Það koma af því reglulega fréttir um að fólk sé að segja sig úr flokknum. Nú síðast bæjarfulltrúi flokksins í Garðabæ. Og það eru höfð uppi stór orð um að flokkurinn hafi svikið mannréttindi fólks, meðal annars með því að sitja hjá í útlendingamálinu. Þetta virðist ekki bíta á fylginu, það virðist hrynja af flokknum allskyns trúnaðarmenn sem hafa gert sig gildandi innan flokksstarfsins en almenningur virðist láta sér það í léttu rúmi liggja.

Helga Vala Helgadóttir hætti sem þingmaður Samfylkingarinnar í september í …
Helga Vala Helgadóttir hætti sem þingmaður Samfylkingarinnar í september í fyrra. mbl.is/Hallur Már

Stimpill á vantrausti

„Já. Ég held að þetta sé líka ákveðinn stimpill á vantrausti á ríkisstjórninni. Það er hluti af því mikla fylgi sem Samfylkingin er að uppskera núna í þessum könnunum, er bara vegna þess hversu ríkisstjórnin er rosalega léleg.

Þannig að þetta er ekki stuðningur við Samfylkinguna sem slíka?

„Jú, jú, líka. Þetta er mjög vel strúktúrerarð hjá henni og hennar fylgitunglum. Og þau eru að gera þetta mjög vel.“

Allir nema Ólafur Þ. Harðarson

En er það rétt hjá þessu fólki sem hefur sagt sig frá störfum að hún hafi snúið baki við mannréttindum?

„Það er algjör viðsnúningur í stefnu flokksins í ákveðnum grundvallarmálum. Það er bara þannig. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Ég var auðvitað nokkuð hissa þegar Ólafur Þ. Harðarson mætti í stuttbuxunum og sagði að það væri engin stefnubreyting. Það sjá það auðvitað allir að það er stefnubreyting.“

Í útlendingamálunum?

„Já og öðrum líka lykilmálum. Mannréttindin hafa verið hliðsett í nýju Samfylkingunni. Það er bara markvisst ákvörðun að hafa það þannig. Sama með umhverfismálin og náttúruverndina sem hafa líka verið kjarnamál. Þau hafa verið sett til hliðar. Þau tala þannig sjálf. Formaðurinn talar þannig. Þetta er ný Samfylking og hún nýtur mikillar hylli. Þannig að almenningur virðist frekar vera á því að hliðsetja mannréttindi og umhverfis- og loftslagsmál.“

Helga Vala og Bergþór Ólason eru gestir Spursmála þessa vikuna.
Helga Vala og Bergþór Ólason eru gestir Spursmála þessa vikuna. mbl.is/Hallur Már

Taka upp stefnu Dananna

Hvað er það að hliðsetja mannréttindi, í hverju birtist það?

„Að leggja ekki lengur áherslu á þau mál. Að það séu ekki lengur þau mál sem flokkurinn talar fyrir. Að taka upp orðræðu systurflokks Samfylkingarinnar, t.d. í Danmörku þegar kemur að málefnum fólks á flótta. Það er auðvitað grundvallar stefnubreyting. Hún virðist virka.“

Fylgið ekki vegna þessa

Það virðist falla í kramið.

„Já en ég held reyndar að þessi 30% séu ekki að merkja sig á flokkinn vegna þeirrar stefnubreytingar. Það er auðvitað lykilfólk sem er að fara en eins og ég heyrði varaformanninn segja: það er allt í lagi, það kemur bara maður í manns stað.“

Það er af nógu að taka.

„Já, já. Það er bara gaman hjá okkur og stemning og fólk kemur og fer þannig að ég held að þeim líði bara vel með það að losna við ákveðinn kjarna sem hefur verið þarna síðustu tvo áratugi í einhverri grasrót. Það er bara í öllum þessum flokkum, það er bara... þetta eru ekki trúarbrögð.“

Leika skjöldum tveim?

Bergþór Ólason telur hins vegar að Samfylkingin sé að reyna að höfða til ólíkra hópa og sjónarmiða þegar kemur að útlendingamálunum.

„En er ekki Kristrún líka að reyna aðeins að feta bil beggja. Eins og við sáum til dæmis í atkvæðagreiðslunni um útlendingamálin, annarri umræðunni. Þá fer Samfylkingin á móti fjölskyldusameiningarákvæðinu, sem var nú kannski aðal ákvæði þessarar síðustu lagabreytingar. Ég veit ekki hvort að það var gert til þess að friða einhverja hópa innan Samfylkingarinnar eða hvort stefnubreytingin hefði ekki gengið lengra en þetta. Því það var auðvitað enginn nema Ólafur Þ. Harðarson sem sá ekki stefnubreytingu í þessu. Kannski var honum bara svo kalt á kálfunum þegar stuttbuxnatímabilið gengur í garð um miðjan vetur. En stefnubreytingin blasir við. En mér hefur þótt vekja litla athygli áherslan á fjölskyldusameiningarhlutann sem var síðan önnur u-beygja út frá þeirri línu sem virtist hafa verið lögð,“ segir Bergþór.

Viðtalið við Helgu Völu og Bergþór má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert