Strákagangamunni í lausu lofti

Halldór Gunnar hefur myndað svæðið töluvert á undanförnum árum og …
Halldór Gunnar hefur myndað svæðið töluvert á undanförnum árum og María ekur um veginn til og frá vinnu og hefur gert undanfarin tíu ár en hún rekur bókhaldsskrifstofu á Siglufirði. Ljósmynd/Halldór Gunnar Hálfdánarson

Hjónin Halldór Gunnar Hálfdánarson og María Númadóttir þekkja Siglufjarðarveg við Almenninga mætavel en þau eru búsett á Molastöðum í Fljótum.

Halldór Gunnar hefur myndað svæðið töluvert á undanförnum árum og María ekur um veginn til og frá vinnu og hefur gert undanfarin tíu ár en hún rekur bókhaldsskrifstofu á Siglufirði.

Töluverðar hreyfingar hafa átt sér stað í og við vegstæðið eins og fjallað hefur verið um og segir María í samtali við Morgunblaðið að þróunin hafi verið mjög hröð á undanförnum tveimur árum. Finnst henni nánast sem hún sjái breytingu á veginum daglega. „Ég upplifi aðeins meira óöryggi en ég gerði fyrir kannski fimm árum þegar ég sé þessar hröðu breytingar,“ segir hún. Hún lýsir ástandinu sem svo að vegurinn sé að molna undan gangamunna Strákaganga Fljótamegin og munninn sé í raun í lausu lofti. Segir hún að sprungur hafi myndast í og við veginn og af og til myndist misstórar holur og skörð í hann.

Vonast til að lenda ekki ofan í

Aðspurð segir hún að reglulega séu unnar viðgerðir á veginum en það sé ekki farið í slíkt fyrr en mjög djúpar holur og skörð séu komin í veginn. María segist hafa séð margar holur í veginum á undanförnum árum, þær minnstu á stærð við fótbolta en þær stærstu það stórar að ef hjól af fólksbíl lenti ofan í myndi skapast stórhætta. „Maður verður bara að keyra með hjólin hvort sínum megin við og vonast til að lenda ekki ofan í þeim,“ segir María og bætir við að jarðvegurinn undir veginum sé í raun farinn enda séu holurnar hyldjúpar og virðast frá veginum botnlausar.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert