„Þokkalega bjartsýn“

Ari segir hraunkælinguna í Grindavík ganga vel.
Ari segir hraunkælinguna í Grindavík ganga vel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraunkælingar og vinnuvélar eru nú notaðar í Grindavík eftir að hraun flæddi nýlega yfir á tveimur stöðum en Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, segir þetta ganga vel.

Markmiðið núna er að sögn Ara að stöðva yfirflæðið yfir garðanna og hækka þá en hann segir að það muni örugglega taka þau tvær vikur að framkvæma.

Hraun flæddi yfir á tveimur stöðum

Hraun hefur flætt yfir á tveimur stöðum en Ari segir að hafi verið sprautað á eystri hrauntunguna í alla nótt og að með þeim árangri hafi hún nánast hætt rennsli.

Unnið er með vinnuvélum við það að setja fyllingarefni upp að vestari hrauntungunni. Ari segir að með þeim er verið að safna í nógu mikið efni upp á varnargarðinn svo hægt sé að fella það ofan í hrauntunguna og þar með stífla hana, en að það verði væntanlega gert í dag.

„Það náttúrulega hefur hjálpað mikið til að það er lítið sem ekkert rennsli núna úr gígnum. Við erum þó með þrýsting í kerfinu sem veldur því að það er að koma hraunflæði þarna niður eftir og yfir garðana en við erum svona þokkalega bjartsýn með það að ná tökum á þessu þannig að þetta fari að komast í jafnvægi,“ segir Ari í samtali við mbl, spurður hvernig framhaldið hjá þeim líti út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert