Vegabréf fjölskyldunnar og hálf milljón horfin

Gistiheimilið Brunnhóll er á Hornafirði.
Gistiheimilið Brunnhóll er á Hornafirði. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Brotist var inn í veitingasal fjölskyldurekna gistiheimilisins Brunnhóls á Hornafirði í nótt. Peningaskápur er nú horfinn sem innihélt um hálfa milljón króna ásamt vegabréfum fjölskyldunnar.

Sigurlaug Gissurardóttir, eigandi gistiheimilisins, segir að um tvo einstaklinga sé að ræða.

„Það koma fyrst þarna tveir einstaklingar inn á gistiheimilið í afgreiðsluna hjá okkur upp úr átta í gærkvöldi og kaupa bjór. Þar sitja þeir og eru svolítið á ferðinni, eru svolítið að fara um og eru órólegir. Þeir vöktu athygli og voru svona skimandi,“ segir Sigurlaug um mennina og bætir við:

„Þá vildu þeir borga og borga með dollurum og virtust hafa alveg búnt af þeim. Svo fara þeir bara, eftir að hafa verið búnir að snuðra og við héldum að málið væri bara dautt – nú væru þeir farnir en við förum samt yfir það alveg tryggilega að öllu sé læst.“

Segir Sigurlaug að maðurinn hennar hafi svo vaknað um fjögur leytið og fundið þörf fyrir að fara um húsið. Var þá búið að brjóta gler í hurð sem er úti á verönd heimilisins og hurðin ólæst.

Óvön að svona gerist í sveitinni

Nefnir Sigurlaug að það hefði tekið þau smá tíma að átta sig á að um innbrot væri að ræða en slíkt sé ekki algengt í sveitinni.

„Það tók okkur alveg svolítinn tíma að átta okkur og ég hugsa að það hafi liðið svona tíu mínútur eða korter þangað til að ég hringdi á lögregluna.“

Í eftirlitsmyndavélum sem voru á staðnum sést hvernig mennirnir koma inn um nóttina og reyna að opna peningakassann – en þó án árangurs. Tókst þeim aftur á móti að finna peningaskáp sem innihélt fjármuni og vegabréf Sigurlaugar og fleiri úr fjölskyldunni.

„Ég er nú ekki að telja peningana hérna yfirleitt en maðurinn minn heldur að það hafi ekki verið mikið meira en 500.000 krónur og eitthvað aðeins í erlendri mynt líka og vegabréfin okkar.“

Mennirnir á ferð yfir daginn

Í Facebook-færslu sem Sigurlaug setti inn á hóp fyrir íbúa sveitarfélagsins segir hún mennina hafa verið á svörtum Mitsubishi Outlander jeppa. Í samtali við mbl.is segir hún þann grun nánast staðfestan eftir að myndefni úr eftirlitsmyndavélum var skoðað.

„Í framhaldinu komu upplýsingar um að þeir hefðu keypt sér eitthvað á Olís-stöðinni á Höfn í gær og hótelstjórinn á Breiðdalsvík setti líka inn að þessir menn hefðu fengið sér kaffi hjá þeim um hádegi í gær og úti á bílaplaninu hafi verið svartur jepplingur – Mitsubishi Outlander – eins og við vorum eiginlega búin að telja að væri þeirra bíll,“ segir Sigurlaug og bætir við:

„Einn af okkar starfsmönnum – hann hafði farið á Höfn í gær og kom heim á puttanum eins og sagt er. Þá var hann tekinn upp í af þessum mönnum segir hann og í svörtum jeppa.“

Nefnir þá Sigríður að hún vonist til að mennirnir steli ekki víðar.

„Það er svona dálítið skrýtinn dagur í dag, en við tökum bara á móti nærri fullu húsi af gestum í gistiheimili í kvöld og sinnum þeim eins og ekkert hafi í skorist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert