Flugferðum aflýst vegna rafmagnsleysis

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafmagnsleysi á Manchester-flugvellinum í Englandi hefur truflað fjölda flugferða í dag og meðal annars gert það að verkum að tveimur ferðum Icelandair hefur verið aflýst.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að tveimur flugferðum þeirra í dag hafi verið aflýst. Annað flugið hafi átt að fara frá Íslandi til Manchester í morgun og hitt frá Manchester til Íslands seinna í dag.

Farþegar mættir þegar fluginu var aflýst

Að sögn Guðna voru farþegar mættir upp á Keflavíkurflugvöll í morgun áður ení ljós kom að það þyrfti að aflýsa fluginu og fengu þeir aðstoð við að finna hótel.

Þá hafi farþegum seinna flugsins verið sagt að fara ekki upp á flugvöll. „Við gerum ekki ráð fyrir að það séu farþegar á Manchester-flugvelli, í það minnsta ekki margir,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.

Langar biðraðir hafa myndast á flugvellinum í Manchester en hann er þriðji stærsti flugvöllur Englands. 

Í frétt frá BBC kemur fram að talsmaður flugvallarins segi flugferðir þeirra sem séu nú þegar á flugvellinum, vera í forgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka