Hringvegurinn er ónýtur að stórum hluta

Umferðin hefur aukist mikið og þar koma til flutningar á …
Umferðin hefur aukist mikið og þar koma til flutningar á afurðum lands og sjávar og ferðamennska, sem ég tel raunar að skili minnu í þjóðarbúskapinn en ef er látið, segir Magnús E. Svavarsson. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ástand þjóðveganna er mjög slæmt og því finna bílstjórarnir mínir vel fyrir. Undirlag fjölförnustu leiða er mjög veikt; í sumum tilvikum er aðeins mulningur ofan á moldinni og því gefur fljótt eftir þegar umferðin er mikil,“ segir Magnús E. Svavarsson, framkvæmdastjóri Vörumiðlunar hf. á Sauðárkróki.

Fyrirtækið er með mikil umsvif í flutningum, þá ekki síst á afurðum utan af landi suður á bóginn. Þar vegur sjávarútvegurinn mjög þungt.

Sótti gosdrykki á Akureyri

Starfsemi Vöruflutninga Magnúsar hófst vorið 1979 og er Magnús því búinn að starfa í 45 ár um þessar mundir. Á þeim tíma var Magnús eini starfsmaðurinn, gerði út bíl frá Sauðárkróki og fór tvisvar í viku á Akureyri. Slíkt fylgdi þá snjómokstursdögum. Magnús flutti afurðir úr Skagafirði til Akureyrar og sótti þar og flutti til baka neysluvörur og aðföng, sem þá voru gjarnan sótt í heildverslanir á Akureyri. Þær aftur voru með umboð fyrir stóru framleiðslufyrirtækin í Reykjavík.

„Ég bæði sendi og sótti mikið í fyrirtæki Sambandsins á Akureyri. Svo sótti ég líka ósköpin öll af gosdrykkjum og var með umboð fyrir Vífilfell, Ölgerð og Sanitas. Nú koma allar svona vörur beint að sunnan,“ segir Magnús þegar hann rifjar upp söguna.

Volvo, Skania, Benz og Man

Magnús átti sjálfur og rak sína vöruflutninga um langt árabil og þá varð Vörumiðlun til. Árið 1996 gerðist það að Kaupfélag Skagfirðinga kom inn í rekstur fyrirtækisins, sem það eignaðist af fullu síðar. Magnús hefur þó alltaf haft framkvæmdastjórnina með höndum enda öllum hnútum kunnugur.

Umsvif Vörumiðlunar eru mikil. Alls er fyrirtækið með í útgerð um 80 flutningabíla, þar af um 60 stóra trukka sem svo eru kallaðir. Þetta eru Volvo, Scania, Benz og Man; flóran öll, enda er flotinn stór. Sumir þessara bíla eru tíu hjóla og mega flytja alls 49 tonna farm. Í raun er landið allt undir í þessari flutningastarfseminni, enda þótt höfuðstöðvarnar séu á Sauðárkróki.

„Við höfum stundum leyft bílstjórunum að vera með í ráðum um val á bíltegundum. Þeim er best treystandi í því, rétt eins og þeir þekkja ástand veganna vel.“

Sauðárkrókur er einn mesti framleiðslubær landsins og er raunar að verða einn sá stærsti að því leyti, segir Magnús. „Hér eru stór fiskvinnsla, mjólkursamlag, kjötiðnaðarstöð og steinullarverksmiðja. Flutningar frá þessum fyrirtækjum eru miklir. Einnig sækjum við fisk víða; svo sem frá Akureyri og Dalvík sem fer í færeysku skipin sem eru í Evrópusiglingum frá Þorlákshöfn. Einnig sækjum við í nokkrum mæli fisk á Snæfellsnesið og sinnum flutningum á Suðurnesjum og Suðurlandinu frá Hellu og austur á Kirkjubæjarklaustur,“ segir Magnús sem fylgist vel með ástandi veganna í gegnum bílstjóra sína sem eru um 80 talsins.

Vegir eru að gefa sig undan þunga

Magnús segir að hringvegurinn alveg frá Hvalfjarðargöngum og norður í Skagafjörð sé ónýtur að stórum hluta, þótt einhverjir smáspottar séu í lagi. Vegir eru að gefa sig undan þunga. Leiðin um Stafholtstungur og Norðurárdal í Borgarfjörð er ónýt, Hrútafjörðurinn og stærstur hluti af Húnavatnssýslunum.

„Nýi vegurinn út á Skagaströnd sem var tekinn í notkun fyrir nokkrum misserum var góð tilraun, ef svo mætti segja, en grjótkast þar er viðvarandi vandamál. Sumir vegir eru líka mjóir svo bílstjórar eiga erfitt með að mætast. Svo getum við líka tiltekið vegi á öðrum slóðum sem eru ónýtir, svo sem Vestfjarðavegur í Dölum og Reykhólasveit sem bókstaflega molnuðu í sundur. Þar flagnaði klæðningin af á löngum köflum svo nú eru þar aðeins malarbrautir. Þarna getur líka komið til að efnablandan í klæðningunni sé ekki rétt,“ segir Magnús og bætir við:

Þörf á miklum úrbótum

„Stóra breytan í þessu öllu varðandi samgöngurnar er samt sú að vegir landsins hafa á síðastliðnum 15 árum, eða alveg frá efnahagshruninu, ekki fengið nauðsynlegt viðhald vegna ónægra fjárveitinga. Á sama tíma hefur umferðin aukist mikið og þar koma til flutningar á afurðum lands og sjávar og ferðamennska, sem ég tel raunar að skili minnu í þjóðarbúskapinn en ef er látið. Þarna er því einhver skekkja í áherslum stjórnvalda, þannig að mikilvægir innviðir landsins gefa eftir. Helstu leiðir út frá borginni, svo sem á Kjalarnesinu, Reykjanesbraut og vegurinn austur fyrir fjall, eru komnar í lag en víða annars staðar þarf að gera miklar úrbætur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert