„Lagðist ágætlega undir lokin“

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingi var frestað rétt eftir miðnætti í nótt. Í ræðu forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar, kom fram að 112 lagafrumvörp hefðu verið samþykkt og 23 þingsályktanir gerðar. Birgir segist sáttur við þinglokin en gengið hafi á ýmsu.

„Ég er nú bara sáttur við þessi þinglok, mér fannst þetta ganga vel á síðustu metrunum. Við auðvitað vorum að afgreiða mjög mörg mál á síðustu dögunum og það gekk ágætlega enda voru þetta í flestum tilvikum mál sem við höfum legið yfir í langan tíma í þinginu. Bæði í nefndum þingsins og í umræðum, þannig þau voru flest langt komin.

Svo auðvitað verða alltaf einhverjar breytingar á lokametrunum, stundum vegna samkomulags milli flokka og stundum vegna þess einfaldlega að ný sjónarmið koma fram, og þá þarf að bregðast við því og að þessu sinni þá sýnist mér að það hafi tekist vel til,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Fleiri mál kláruð 

Málafjöldinn sé í góðu samræmi við það sem gerist á tiltölulega starfsömu þingi.

Það sé „að minnsta kosti ljóst að talsvert fleiri mál hafa klárast nú í vor en á fyrri þingum á þessum kjörtímabili.“

„Auðvitað er fjöldi mála ekki mælikvarði í sjálfu sér af því að stundum er hægt að afgreiða mörg smærri mál á miklu skemmri tíma heldur en eitt stórt mál, en það gefur kannski ákveðna vísbendingu,“ segir Birgir.

Sem dæmi um þau mál sem hafa verið kláruð eða liggja ókláruð nú nærri þinglokum eru: 

Án mikilla breytinga

  • Fjármálaáætlun
  • Útlendingamál
  • Ferðamálastefna 
  • Málefni er varða Grindavík
  • Kjarasamningsmál

Með breytingum

  • Breytingar á fyrirkomulagi örorkukerfisins
  • Lögreglulögin
  • Húsnæðismál 

Óafgreidd

  • Sóttvarnarlög 
  • Vindorkufrumvarp
  • Samgönguáætlun 
  • Frumvarp um lagareldi

Gengið á ýmsu

„Það hefur auðvitað gengið á ýmsu í vetur eins og fólk þekkir og stundum verið tekist hart á. Ég held hins vegar, og get ekki metið það öðruvísi en svo, að það hafi verið tiltölulega góð samvinna um að ljúka málum núna við þinglokin með sæmilega skynsömum hætti.

En þetta er auðvitað þannig, að það liggur í eðli okkar starfs, að við erum auðvitað bæði stjórn og stjórnarandstaða og mismunandi flokkar eru auðvitað hver fyrir sig að vinna að sínum stefnumálum sem fer ekkert alltaf saman. Svo þurfa menn líka að komast að sameiginlegum niðurstöðum, þetta kostar stundum átök og stundum málamiðlanir og ég held að okkur hafi, allaveganna á lokametrunum gengið ágætlega í þeim efnum,“ segir Birgir. 

Birgir nefnir til dæmis vantrauststillögur gagnvart ráðherra og ríkisstjórn og þær miklu breytingar sem urðu á ríkisstjórninni í apríl.

„Þetta svona lagðist ágætlega undir lokin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert