Undirbúa kælingu hrauns við Grindavíkurveg

Slökkviliðsmenn dæla köldu vatni á hraun við Svartsengis.
Slökkviliðsmenn dæla köldu vatni á hraun við Svartsengis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er búið að hægja vel á sér og lítur út fyrir að hafa kólnað mikið,“ segir Haukur Grönli, verkefnastjóri hjá almannavörnum, um hraunkælinguna við Svartsengi.

Munu viðbragðsaðilar hugsanlega reyna hraunkælingu við Grindavíkurveg seinna í kvöld eða nótt.

Hraunkælingu við Svartsengi var hætt í gær eftir að eldgosinu lauk. Um kvöldið var þó tekin ákvörðun um að hefja kælingu hrauns á ný eftir að ein hraunspýjan fór af stað við varnargarðinn L1.

Kælingin gengið vel

Að sögn Hauks hefur kælingin gengið vel og var ekki mikil hreyfing á hrauninu í morgun. Munu viðbragðsaðilar halda áframa sprauta vatni á spýjurnar í kvöld og nótt.

„Við förum varlega með að lýsa einhverju eins og þetta sé eitthvað kraftaverk en við svo sem vissum ekkert hvernig þetta myndi virka – þessi tilraun. En við erum búnir að sjá það að þetta getum við virkilega notað sem eitt af okkar verkfærum við svona aðstæður og þetta er alveg að hjálpa.“

Hreyfing nálægt Grindavíkurvegi

Að sögn Hauks er undirbúningur hafinn við kælingu hrauns í grennd við Grindavíkurveg.

„Við ætlum að reyna við Grindavíkurveginn í kvöld. Það er búið að byggja upp smá varnargarð við hrauntauminn og svo ætlum við að láta vatnið duna á því og sjá hvort að við getum stýrt því eitthvað,“ segir Haukur og bætir við:

„Þetta er einhver örlítil hreyfing sem er að koma þarna niður með varnargarðinum og stefnan er að láta vatnið buna þar á í nótt og koma svo á morgun og reyna að ryðja þessu öllu í burtu eða moka yfir eða sjá hvað verði gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert