Vill endurvekja Elliðaárvirkjun

Elliðaárvirkjun.
Elliðaárvirkjun. mbl.is/Sigurður Bogi

Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hyggst leggja fram þá tillögu á stjórnarfundi á morgun að hafin verði raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun á nýjan leik, með það fyrir augum að tryggja orkuöryggi heimila í Reykjavík.

Í tillögunni felst að innviðir sem nú þegar eru til staðar í Elliðaárdal verði nýttir svo hefja megi framleiðslu á allt að tíu megavöttum af rafmagni. 

Í greinargerð með tillögunni segir Björn að mikilvægt sé að tryggja orkuöryggi heimilanna í Reykjavík annars vegar í ljósi fyrirséðs orkuskorts í landinu og hins vegar vegna mögulegra eldsumbrota á Hengilssvæðinu. 

„Hér lagt til að þeir innviðir sem nú þegar eru til staðar við Rafstöðina í Elliðaárdal verði nýttir, en fjárfest yrði í nýrri túrbínu sem gæti framleitt allt að sex til tíu megavött af rafmagni. Framleiðsla á tíu megavöttum gerði Orkuveitu Reykjavíkur kleift að tryggja allt að 17.000 heimilum í Reykjavík raforku, sem gera 34% heimila í höfuðborginni,“ segir hann í greinargerðinni.

Leggur hann enn fremur til að skoðað verði að byggja 15 fermetra jarðhýsi, þar sem túrbínunni yrði komið fyrir, vestan megin við rafstöðvarhúsið í Elliðaárdal.

Frá Elliðaárdalnum.
Frá Elliðaárdalnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjárfesting borgi sig upp á 5-7 árum 

„Fjárfesting þessi tryggir ekki aðeins almannaöryggi, heldur myndi hún borga sig upp á 5-7 árum og yrði þar af leiðandi arðbær framkvæmd fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og þar með borgarbúa alla, enda Orkuveita Reykjavíkur í eigu skattgreiðanda í Reykjavík að mestu.“

Hann segir eldsumbrotin á Reykjanesskaga og heitavatnsleysið sem fylgdi varpa enn meira ljósi á mikilvægi þess að aðgengi að rafmagni sé nægilegt.

„Þá er tómt mál að tala um að hér ríki orkuskortur þegar við eigum tilbúna virkjun í Reykjavík, sem þarfnast örlítill lagfæringa til að gangsetja,“ segir Björn.

„Nú eru yfir eitt hundrað ár liðin frá því Elliðaárvirkjun tók til starfa. Hún var tekin í notkun á vormánuðum 1921 og var fyrsta vatnsaflsvirkjun Reykvíkinga. Virkjunin var starfrækt til ársins 2014 er aðrennslisrör hennar gaf sig og var hún þá ein elsta virkjun í heiminum sem enn var í notkun. Elliðaárvirkjun á stóran þátt í sögu Reykjavíkur en það færi vel á því að gera sögu hennar og mikilvægi hátt undir höfði með því að gangsetja hana á nýjan leik.“

Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert