„Ekki hræddar við að vera sterkar“

Hanna Jóna á Reykjavíkurleikunum í janúar þar sem hún reif …
Hanna Jóna á Reykjavíkurleikunum í janúar þar sem hún reif í stálið sem enginn væri morgundagurinn.

„Þetta er fyrsta stórmótið mitt og var mjög skemmtileg upplifun,“ segir Hanna Jóna Sigurjónsdóttir í samtali við mbl.is, nýsnúin heim af heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Druskinkai í Litáen, en Hanna Jóna tók að æfa kraftlyftingar í janúar í fyrra eftir nokkurn feril í krossfimi (e. crossfit) og nú verður ekki aftur snúið.

Hanna Jóna hafnaði í 11. sæti af 15 í +84 kg flokki og má vel við una á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.

„Ég opnaði í 185 kílóum í hnébeygjunni, fór svo í 195 og tók svo 200,“ segir Hanna Jóna í samtali við mbl.is en síðasta lyftan var persónuleg bæting hennar í greininni um fimm kílógrömm.

Fór að lokum í 95

Í bekkpressu hóf hún leika með 87,5 kg, „það er frekar há opnun fyrir mig og ég fékk eitt rautt ljós fyrir dýpt“, segir hún frá, það er einn dómari af þremur vildi ógilda lyftuna. Kviðdómur úrskurðaði hins vegar gilda lyftu svo þyngdin stóð. „Við ákváðum þá bara að hækka í 90 og það fór upp líka og að lokum fór ég í 95 sem flaug upp,“ segir Hanna Jóna af góðri keyrslu í bekknum, hennar bestu frammistöðu á móti fram til þessa.

Hanna Jóna á aðeins eitt og hálft ár að baki …
Hanna Jóna á aðeins eitt og hálft ár að baki í kraftlyftingum en var þó að snúa heim af heimsmeistaramóti í Litáen. Ljósmynd/Aðsend

„Við“ eru þau þjálfari hennar, Helgi Arnar Jónsson frá Akranesi, svo því sé haldið til haga.

Þar með var komið að lokagreininni, réttstöðulyftunni, þar sem Hanna Jóna opnaði með 195 kg, „sem hefur alltaf verið mjög „solid“ opnun fyrir mig. Svo hoppuðum við í 205, ég hef átt í erfiðleikum með að læsa í efstu stöðu í réttstöðulyftunni og það háði mér líka núna,“ segir Hanna Jóna frá en hún tapaði tveimur seinustu lyftunum í ógildingu svo 195 kg fengu að standa og lokatalan 490 kg í samanlögðu, tæpt hálft tonn.

„Það er sjö og hálfu kílói frá mínu besta en þetta er fyrsta stórmótið mitt svo ég er bara mjög ánægð,“ segir Hanna Jóna og er spurð hvernig leið hennar hafi legið inn í heim kraftlyftinganna.

„Ég byrjaði í janúar í fyrra eftir að hafa verið að æfa crossfit þar sem ég var fljótlega farin að lyfta töluvert meiri þyngdum en æfingafélagarnir þannig að ég ákvað að prófa og keppti á byrjendamóti í febrúar á seinasta ári og sigraði þar. Fjórum vikum síðar lenti ég í þriðja sæti í opnum flokki á Íslandsmeistaramóti og svo í öðru sæti á bikarmeistaramótinu í október í fyrra,“ segir Hanna Jóna frá sem hóf ferilinn með látum.

Mynd frá HM í Litáen en fleiri myndir sem teknar …
Mynd frá HM í Litáen en fleiri myndir sem teknar voru þar af Hönnu Jónu láta bíða eftir sér. (Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasambandið)

Komin á rétta hillu

Sá ferill er lengri og fór svo að þessi tiltölulega nýbyrjaði iðkandi náði lágmarki fyrir heimsmeistaramótið á bikarmótinu í apríl í vor. „Það er 497,5 kíló svo ég er mjög sátt. Ég ætlaði mér alls ekki á HM í ár, ætlaði að fara á næsta ári, en Helgi Arnar hvatti mig til að heyra í Hinriki [Pálssyni, formanni Kraftlyftingasambandsins] og spyrja hann hvort ég gæti farið og sú varð raunin,“ segir Hanna Jóna frá og er spurð hvernig henni þyki að vera komin á þann stað eftir eitt og hálft ár við æfingar.

„Mér finnst þetta ótrúlegt, að ég sé komin þetta langt á svo stuttum tíma, en mér finnst bara að þetta sé það sem ég eigi að vera að gera,“ segir Hanna Jóna Sigurjónsdóttir kraftlyftingakona að lokum, „og mér finnst mjög jákvætt að sjá fjölgunina í sportinu, sérstaklega hjá ungum stelpum sem eru ekki hræddar við að vera sterkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert