Fækkað um fjórar stofnanir

Ný Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á …
Ný Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, þ.m.t. Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs, mbl.is/RAX

Alþingi samþykkti um helgina frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun.

Með staðfestingu laga um Umhverfis- og orkustofnun tekur hin nýja stofnun við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, en Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar.

Stofnanirnar taka til starfa 1. janúar 2025, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins. 

Með gildistöku laganna hefur stofnunum ráðuneytisins fækkað úr 13 í …
Með gildistöku laganna hefur stofnunum ráðuneytisins fækkað úr 13 í 9 á þessu ári.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar lögð niður

Þá samþykkti Alþingi að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verði lögð niður og munu verkefni stofnunarinnar sameinast Háskólanum á Akureyri. Með gildistöku laganna hefur stofnunum ráðuneytisins fækkað úr 13 í 9 á þessu ári, segir enn fremur. 

Þá kemur fram, að Umhverfis- og orkustofnun fari með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar, auk þess sem Raforkueftirlit muni starfa sem sjálfstæð eining undir stofnuninni.

Ætlað að stuðla að því að markmið stjórnvalda gangi eftir

„Megintilgangur nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar er að stuðla að því að markmið stjórnvalda um loftslagsmál gangi eftir, auk þess að leggja áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda með náttúruvernd og lágmörkuð umhverfisáhrif að leiðarljósi.

Ný Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, þ.m.t. Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar, sem og eftirliti á ofangreindum sviðum,“ segir í tilkynningunni. 

Tekið er fram, að ekki verði skipuð sérstök stjórn yfir hinni nýju stofnun, heldur muni svæðisstjórnir fara með umsjón tiltekinna landfræðilega afmarkaðra svæða í umboði ráðherra og er lögð áhersla á að efla og viðhalda það skipulag sem skilað hefur góðum árangri við stefnumótun um stjórnun og vernd innan þjóðgarðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert