Ný skýrsla embættis ríkislögreglustjóra um ofbeldi barna sýnir að meiriháttar eða stórfelldar líkamsárásir meðal barna hafa aldrei verið fleiri. Þetta er þrátt fyrir að ofbeldisbrotum ungmenna hefur ekki fjölgað frá árinu 2007. Þá hefur hlutfall barna sem fremja ítrekuð ofbeldisbrot hækkað.
Upplýsingarnar sem má finna í skýrslunni eru meðal annars fengnar úr málaskrá lögreglu og frá erlendum samstarfsaðilum. Að auki er tíðni ofbeldisbrota og þróun þeirra sem og áhrif ofbeldis á börn rakin og litið til stöðunnar hvað varðar ofbeldisbrot ungmenna hjá öðrum Norðurlöndum.
„Samnefnari allra Norðurlandanna er sá að alvarlegum ofbeldisbrotum fari fjölgandi, sér í lagi hjá 15 ára og yngri. Mikilvægt þykir hér að taka fram að munur er á afbrotahegðun ungmenna sem eru hagnýtt í ólögleg verkefni skipulagðrar brotastarfsemi annars vegar og hins vegar afbrotahegðun ungmenna sem telja sig vera hluti af gengjum eða þar sem vinahópar eru virkir í afbrota- og frávikshegðun og þátttaka þeirra er félagslega bundin við jafningjahópana,“ segir í skýrslunni.
Ef litið er á innlendar tölur má sjá að fjöldi líkamsárása og líkamsmeiðinga meðal ungmenna hefur sveiflast á síðustu 16 árum, eða frá 2007, en hækkað frá árinu 2020, að minnsta kosti ef litið er til meiriháttar eða stórfelldra líkamsárása.
Fjöldi meiriháttar eða stórfelldra líkamsárása hefur hækkað úr 36 upp í 69 á árunum 2020 til 2023. Fjöldi minniháttar líkamárása hefur sveiflast eilítið á sama tímabili en lækkað úr 151 í 139 á árunum 2022 til 2023.
Þá hefur heildarfjöldi ofbeldisbrota ungmenna hækkað frá árinu 2019, úr 157 í 285 árið 2023. Þá kemur fram að fleiri fremji ítrekuð ofbeldisbrot og áður og tilkynningum um ofbeldisbrot hjá aldurshópnum 13 til 15 ára hækkað.
Í skýrslunni eru lögð drög að aðgerðum til þess að taka megi betur um málaflokkinn. Lagt er til að vitundavakningu um ofbeldi sé áfram sinnt, mælaborð lögreglunnar vegna ofbeldisbrota barna verði sett upp og leggja frekari áherslu á greiningu áhrifa samfélagsmiðla á ofbeldi og dreifingu vímuefna.
Frekari upplýsingar um tölfræði og innihald skýrslunnar má sjá með því að smella hér.