„Hrein og klár aðför að öryrkjum“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eyþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ræðudrottning nýafstaðins þings, segist hafa barist með kjaft og klóm gegn því að grásleppan yrði kvótasett og er á móti nýrri almannatryggingalöggjöf.

Þingi var frestað um helgina en meðal þeirra mála sem náðist að af­greiða voru breytingar á fyrirkomulagi örorkukerfisins, heimild fyrir áframhaldandi sölu á Íslandsbanka og nýtt út­lend­inga­frum­varp.

Meðal mála sem ekki náðist að klára eru vindorkulög, sótt­varn­ar­lög og lög um lagar­eldi.

Ámælisverð breyting

Inga er ósátt með þó nokkur mál sem afgreidd voru á þinginu og nefnir sérstaklega það að sala ríkisins á eftirstandandi hlut þess í íslandsbanka hafi verið samþykkt.

„Við höfum verið verulega skýr með að við höfum ekki viljað sjá áframhaldandi sölu á Íslandsbanka og það er verulega ámælisvert að það sé verið að taka út þessa sérstöku hæfisreglu. Það er verið að fyrra ráðherra ábyrgð sama hvernig gengur til,“ segir Inga.

Aðför að smábátsjómönnum

Inga segist sömuleiðis vera á móti kvótasetningu á grásleppu sem samþykkt var á þinginu.

„Ég barðist gegn því með kjafti og klóm að grásleppann yrði kvótasett. Hér er verið að ráðast á 102 smábáta sem hafa haft þetta sem aukabúgrein við strandveiðarnar sem þeir eru nú ekki of búttnir af,” segir Inga og bætir við að strandveiðisjómönnum hafi ekki verið tryggðir 48 dagar til veiða líkt og lög kveða á um.

„Það er greinileg aðför að strandveiðisjómönnum og þetta er bara enn einn naglinn í þá kistu að koma þessum littla 5.3 prósent potti yfir á sægreifana,“ segir Inga.

Ein á móti breytingunum

Annað mál sem fór í gegnum þingið voru breytingar á fyrirkomulagi örorkukerfisins en Flokkur fólksins kaus einn flokka á móti þeim.

Inga segir ástæðuna vera að of mikil áhersla sé lögð á starfsgetu og virknistyrk í frumvarpinu en hún vill meina að starfsgetumatið sé óundirbúið og sé gert til að koma í veg fyrir nýgengni öryrkja. 

„Okkur þykir þetta hrein og klár aðför að öryrkjum,“ segir Inga.

Færibandavinna

Spurð hvort hún sé sátt með einhver mál sem komust í gegnum þingið segir Inga: „Almennt séð virðist þetta bara vera færibandavinna við fengum ekkert af okkar frumvörpum í gegn.“

Hún segist þó sátt með að lög um lagareldi, vindorku og sóttvarnir hafi ekki farið í gegnum þingið að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert