Upplýsingar um áskrifendur Morgunblaðsins og aðra viðskiptavini Árvakurs voru ekki teknar í gíslingu í netárás sem gerð var á útgáfufélagið í gær.
Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, varð fyrir stórfelldri netárás í gær með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn gagna var tekið í gíslingu. Aftur á móti bendir ekkert til þess að gögnunum hafi verið lekið.
Úlfar Ragnarsson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Árvakurs, segir við mbl.is að árásin hafi hvorki beinst að áskriftarkerfi né bókunarkerfi Árvakurs.
Það þýði að upplýsingar um viðskiptavini fyrirtækisins, þ.á.m. áskrifendur Morgunblaðsins, hafi ekki verið teknar í gíslingu. Hakkararnir hafi heldur ekki komist í greiðsluupplýsingar.
Aftur á móti var stór hluti gagna í innra tölvukerfi Árvakurs læstur og dulkóðaður. Úlfar segir að unnið sé að því að endurheimta gögnin. Ekkert bendir til þess að netþrjótarnir hafi komist í tölvupósta starfsmanna.
„Við erum að vinna hörðum höndum að því að koma þessu í lag,“ segir Úlfar.
Netárás gærdagsins hefur haft nokkur áhrif á starfsemi Árvakurs. Þegar upp komst um árásina var gripið til þeirra öryggisráðstafanna að taka fréttavefinn mbl.is niður og lá hann niðri frá um kl. 17 til um kl. 20.
Samt kom Morgunblaðið út í morgun, þó ekki nema í 16 blaðsíðum.
Unnið er að því að hreinsa nær allar vinnutölvur í Hádegismóum og hafa margir starfsmenn á meðan unnið í eigin fartölvum.
Rússneskur hakkarahópur stendur að árásinni en sami hópur hefur áður ráðist á tölvukerfi bílaumboðsins Brimborgar og Háskólans í Reykjavík.
Enn er ekki ljóst hvernig með hvaða hætti glæpamennirnir smeygðu sér inn í kerfin en fyrir liggur að hópar sem þessi eru úrræðagóðir.
Hægt er að ná í fréttadeild mbl.is í gegnum tölvupóstfangið frettir@mbl.is og í síma 669-1200. Þá er hægt að senda inn greinar og minningargreinar í gegnum innsendingarkerfi á vefnum.