Komust ekki í upplýsingar um áskrifendur

„Við erum að vinna hörðum höndum að því að koma …
„Við erum að vinna hörðum höndum að því að koma þessu í lag,“ segir Úlfar. mbl.is/Árni Sæberg

Upplýsingar um áskrifendur Morgunblaðsins og aðra viðskiptavini Árvakurs voru ekki teknar í gíslingu í netárás sem gerð var á útgáfufélagið í gær.

Árvak­ur, út­gáfu­fé­lag Morg­un­blaðsins, varð fyr­ir stór­felldri netárás í gær með þeim af­leiðing­um að gríðarlegt magn gagna var tekið í gísl­ingu. Aftur á móti bendir ekkert til þess að gögnunum hafi verið lekið.

Úlfar Ragn­ars­son, for­stöðumaður upp­lýs­inga­tækni­sviðs Árvak­urs, segir við mbl.is að árásin hafi hvorki beinst að áskriftarkerfi né bókunarkerfi Árvakurs.

Það þýði að upplýsingar um viðskiptavini fyrirtækisins, þ.á.m. áskrifendur Morgunblaðsins, hafi ekki verið teknar í gíslingu. Hakkararnir hafi heldur ekki komist í greiðsluupplýsingar.

mbl.is lá niðri í þrjá tíma

Aftur á móti var stór hluti gagna í innra tölvu­kerfi Árvak­urs læstur og dulkóðaður. Úlfar segir að unnið sé að því að endurheimta gögnin. Ekkert bendir til þess að netþrjótarnir hafi komist í tölvupósta starfsmanna.

„Við erum að vinna hörðum höndum að því að koma þessu í lag,“ segir Úlfar.

Netárás gærdagsins hefur haft nokkur áhrif á starfsemi Árvakurs. Þegar upp komst um árásina var gripið til þeirra öryggisráðstafanna að taka frétta­vef­inn mbl.is niður og lá hann niðri frá um kl. 17 til um kl. 20.

Samt kom Morgunblaðið út í morgun, þó ekki nema í 16 blaðsíðum.

Réðst líka á HR og Brimborg

Unnið er að því að hreinsa nær allar vinnutölvur í Hádegismóum og hafa margir starfsmenn á meðan unnið í eigin fartölvum.

Rússneskur hakkarahópur stendur að árás­inni en sami hópur hefur áður ráðist á tölvukerfi bílaum­boðsins Brim­borgar­ og Há­skól­ans í Reykja­vík.

Enn er ekki ljóst hvernig með hvaða hætti glæpa­menn­irn­ir smeygðu sér inn í kerf­in en fyr­ir liggur að hóp­ar sem þessi eru úrræðagóðir.

Hægt er að ná í fréttadeild mbl.is í gegnum tölvupóstfangið frettir@mbl.is og í síma 669-1200. Þá er hægt að senda inn greinar og minningargreinar í gegnum innsendingarkerfi á vefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka