„Mörg þjóðþrifamál voru ekki unnin“

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokksformaður Viðreisnar segir stinga mest í augu að samgönguáætlun hafi ekki verið afgreidd fyrir þinglok. Hún telur ástæðuna innbyrðis átök ríkisstjórnarflokkanna.

Þingfundi var frestað skömmu eftir miðnætti á laugardaginn en meðal þeirra mála sem tókst að afgreiða úr þinginu var fjármálaáætlun, nýtt útlendingafrumvarp, ferðamálastefna og breytingar á fyrirkomulagi örorkukerfisins.

Ekki náðist að afgreiða samgönguáætlun, frumvarp um lagareldi, vindorkufrumvarp og fleiri mál. 

Samgönguáætlun ekki afgreidd

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, er ósátt með að ekki hafi tekist að afgreiða samgönguáætlunina: „Það stingur mest í augu að samgönguáætlun hafi ekki náðst. Þar er auðvitað um að ræða mikilvægar framkvæmdir og ekki síst því það var búið að leggja í hana mjög mikla vinnu.“

Hanna Katrín kveðst ekki skilja hvað varð til þess að málið náði ekki í gegn en hún segir skýringar um að samræmi við fjármálaáætlun hafi vantað ekki halda vatni.

„Það eru auðvitað sömu stjórnvöld sem leggja báðar þessar áætlanir fram. Ég held að það verði að rekja þá ástæðu til einhverja innbyrgðisátaka í ríkisstjórnarflokkunum,“ segir Hanna Katrín.

„Alltaf einhver hrossakaup“

Þá finnst Hönnu Katrínu vont að stór mál er varða orkuöryggi og lagaramma um lagareldi hafi ekki náðst í gegn en hún telur sömuleiðis að skýringin á því liggi hjá ríkisstjórninni. 

„Þetta ber allt þess merki að mikill tími og mikil orka hafi farið hjá ríkisstjórninni og þingmönnum stjórnarmeirihlutans í að takast á innbyrgðist í einhverskonar valdabaráttu sem kostaði það að mörg þjóðþrifamál voru ekki unnin,“ segir Hanna. 

Spurð hvort hún hafi trú á að umrædd mál náist í gegn á næsta þingi segir hún: „Tilfinningin er sú að það verði alltaf einhver hrossakaup á milli ríkisstjórnarflokkana,“ en bætir við að ljóst sé að veturinn verði erfiður. 

Ánægð með breytingar á örorkukerfinu

Hanna Katrín er þó sátt með einhver mál sem náðu í gegn á þinginu en hún fagnar breytingum á fyrirkomulagi örorkukerfisins.

„Ég held að það ríki almenn sátt með að breytingar á örorkulögunum hafi farið í gegn sérstakelga með breytingartillögum sem stjórnarandstaðan sameinaðist um og náði eyrum meirihlutans í þingloksviðræðunum. Þetta var mál sem búið var að leggja mikla vinnu í og mun bæta stöðu margra,“ segir Hanna Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert