Refsivert að aka ölvaður á rafhlaupahjóli

Fólk getur nú átt von á sekt ef það ekur …
Fólk getur nú átt von á sekt ef það ekur rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis. mbl.is/Árni Sæberg

Nú er orðið refsivert að aka undir áhrifum áfengis á rafhlaupahjóli líkt og annarra vélknúinna ökutækja. Þessi lög voru með þeim síðustu sem samþykkt voru fyrir þinglok Alþingis.

Samkvæmt tillögum samráðshóps auk annarra breytinga munu rafhjól þá einnig falla undir nýjan flokk ökutækja, smáfarartæki og eru því strangari reglur sem fylgja en áður þegar rafhjólin voru í flokki reiðhjóla.

Tæpur helmingur slysa átti sér stað á helgarkvöldum

Starfshópur um smáfarartæki skilaði innviðaráðherra skýrslu í júní 2022 þar sem fram kemur að umferð smáfarartækja, sérstaklega rafhlaupahjóla, hafi aukist mjög og slys séu algeng.

42 prósent alvarlega slasaðra í umferðinni árið 2021 voru gangandi, hjólandi eða á rafhlaupahjóli og stór hluti slíkra slysa tengdist rafhlaupahjólum og átti sér stað seint á föstudögum eða laugardögum og eftir miðnætti að þeim liðnum.

Í greinargerð laganna kemur fram að ölvun hafi verið áberandi hjá þeim sem slösuðust á fyrrgreindum tíma og samkvæmt könnun höfðu 40% þeirra vegfarenda, á aldrinum 18 til 24 ára sem ekið höfðu rafhlaupahjóli á sex mánaða tímabili, gert það undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Ungmenni áberandi í hópi slasaðra

Í hópi óvarinna vegfarenda sem slösuðust alvarlega í umferðinni á árinu 2021 voru ungmenni áberandi og mörg ung börn, allt niður í átta ára gömul, sem komu á neyðarmóttöku Landspítala vegna slysa á rafhlaupahjólum.

Kveðið er á um 13 ára aldurstakmark til aksturs smáfaratækis sem og hjálmaskyldu 16 ára og yngri. Aukin notkun rafhlaupahjóla leiddi til þess að 17 prósent þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðarslysi árið 2021 óku um á rafhlaupahjólum, þá var umferð þeirra þó innan við 1 prósent af allri umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert