„Blasi við öllum að ríkisstjórnarsamstarfið er búið“

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins..
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.. mbl.is/Arnþór

„Heilt yfir held ég að þinglokin hafi tekist ágætlega þó það blasi við öllum að ríkisstjórnarsamstarfið er búið,“ segir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, spurður hvernig nýafstaðin þinglok leggist í flokkinn. 

Þingi var frestað skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags en meðal þeirra mála sem náðist að afgreiða voru breytingar á örorkulögum, fjölgun listamannalauna og nýtt útlendingafrumvarp.

Meðal þeirra mála sem ekki náðist að klára er samgöngusáttmáli, sóttvarnarlög og lög um lagareldi.

Skynsamlegt að bíða með sóttvarnarlög

Bergþór Ólason segir þingmenn Miðflokksins almennt ánægða með þinglokin, hvaða mál kláruðust og hvaða mál sigldu í strand. Í því samhengi nefnir hann sérstaklega sóttvarnarlögin.

„Ég taldi skynsamlegt að afgreiða ekki sóttvarnarlögin án þess að heildarúttekt hefði farið fram á hver áhrif ákvarðanna á grundvelli þeirra hefðu verið á covid-tímabilinu,“ segir Bergþór og talar sömuleiðis um að þær breytingar sem stjórnarandstaðan hafi náð fram í nýjum örorkulögum hafi verið góðar.

Mörg mál dóu í höndum stjórnarflokkanna

Bergþór er hissa á að ekki hafi tekist að breyta samgönguáætlun þannig að hún væri tæk til afgreiðslu en hann segir óvenjulegt hve mörg mál dóu í höndum ríkisstjórnarflokkanna sjálfra. 

„Þetta var auðvitað óvenjulegt í ljósi þess hve mörg mál dóu í höndum stjórnarflokkanna sjálfra. Mál sem höfðu bæði farið í gegnum ríkisstjórn og þingflokka en stjórnarflokkarnir náðu svo ekki sátt um þegar á reyndi,“ segir Bergþór.

Ósátt með stofnanavæðingu

Spurður hvort Miðflokksmenn séu sérlega ósáttir með einhver mál sem fóru í gegnum þingið segir Bergþór:

„Við erum auðvitað mjög ósátt með þessa stofnanavæðingu sem áfram er ýtt undir í tengslum við þessa nýju mannréttindastofnun Vinstri grænna.“

Hann segir fjölgun listamannalauna sömuleiðis ekki tímabæra „á meðan slagurinn við verðbólguna stendur sem hæst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert