14 ára frelsissviptingu ljúki á næstu 24 klst.

Krist­inn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­Leaks, og Julian Assange, stofnandi Wiki­Leaks.
Krist­inn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­Leaks, og Julian Assange, stofnandi Wiki­Leaks. Samsett mynd/AFP

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, segir að Julian Assange sé ákaflega ánægður með að vera laus úr fangelsinu í Bretlandi. Á næsta sólahringnum skýrist hvort hann geti fagnað frelsi eftir 14 ára frelsissviptingu. 

Julian Assange er nú á leið til Norður-Maríanaeyja, með viðkomu í Taílandi, eftir að hafa verið látinn laus úr öryggisfangelsi í Bretlandi, þar sem hann hefur verið fangi í rúm fimm ár.

Assange mun lýsa sig sek­an um eina ákæru um sam­særi sem snýr að birt­ingu trúnaðar­gagna sam­kvæmt skjali sem lagt var fyr­ir dóm­stóla á Norður-Marí­ana­eyj­um. Þetta er liður í sátt sem hann ger­ir við yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um til að kom­ast hjá framsali til Banda­ríkj­anna.

Assange með efasemdir

Kristinn segist ákaflega glaður með þessa niðurstöðu og hafi verið í þeirri hringiðu að reyna að koma þessu í gegn.

„Ég hef hvatt hann mjög lengi að fara þessa leið og hann hefur haft efasemdir um það. Það er hins vegar ljóst að menn verða líka að hugsa um sína fjölskyldu og eigin hag.

Hann er að komast frá þessu ástandi eftir að hafa verið í meira en fimm ár í mesta öryggisfangelsi Bretlands, þannig það er ekki hægt að segja annað en að það séu góð tíðindi,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is.

Anda léttar þegar hann flýgur úr bandarískri lofthelgi

Er þá farið að sjá fyrir endann á þessu máli?

„Já við skulum vona það, að það komi engin snurða á þráðinn. Það þarf að mæta fyrir dómara á þessum útkjálka bandaríska heimsveldisins í Norðvestur-Kyrrahafi á Norður-Maríanaeyjum,“ segir Kristinn.

„Þar stendur til að fara fyrir dómara og ná lúkningu fram á grundvelli samkomulags sem liggur fyrir. Eftir það getur hann stigið upp í flugvél og flogið til Ástralíu til síns heimaríkis og sameinast fjölskyldunni.“

Þá verði Assange frjáls og laus allra mála, ef allt gengur upp. Það komi í ljós næsta sólahringinn.

„Það verður ekki fyrr en á morgun sem við getum andað léttar, þegar hann flýgur út úr bandarískri lofthelgi,“ segir Kristinn.

Assange segist „ákaflega glaður“

Kristinn segist hafa verið í reglulegum samskiptum við Assange. „Að sjálfsögðu er hann ákaflega glaður með að vera loksins frjáls úr þessari prísund fangelsisvistar,“ segir Kristinn.

Hann bendir á að á undan fangelsisvistinni í Bretlandi hafi Assange verið diplómatískur flóttamaður í sendiráði Ekvadors, og þar á undan í stofufangelsi.

„Þetta er búið að vera 14 ára frelsissvipting í einu formi eða öðru,“ segir Kristinn.

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. AFP

Vendipunkturinn varð í réttarsal í maí

Hann segir að eftir margra ára ferli hafi vendipunkturinn orðið í réttarsal í Lundúnum 20. maí síðastliðinn. Þá hafi orðið algjör stefnubreyting og kúvending í framsalsmálinu.

„Hann fékk leyfi til áfrýjunar með tilvísun til hagsmuna blaðamanna og vernd blaðamanna í bandarísku réttarkerfi, þar sem lögmenn Bandaríkjastjórnar gátu ekki sannfært breska dómara um það að hann gæti sjálfkrafa notið verndar sem ástralskur ríkisborgari og blaðamaður, eða sótt um slíka vernd á grundvelli fyrsta viðauka stjórnarskráarinnar.

Við þann viðsnúning, sem var mikill sigur, þá var nokkuð ljóst að þó að það væri dregið áfram þetta mál í gegnum áralangt ferli í gegnum breska réttarkerfið og síðan Evrópudómstólinn, þá myndi þetta hafast fyrir rest.

Það getur tekið mörg ár að komast að slíkri niðurstöðu. Þessi sigur í maí var vendipunkturinn og skýrir að mínu mati það af hverju við erum á þessum stað núna,“ segir Kristinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert