Á þriðja tug handteknir í aðgerðum lögreglunnar

Ljósmynd/Colourbox

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á samtals rúmlega sex kíló af kókaíni og amfetamíni í umfangsmiklu máli sem hefur verið til rannsóknar hjá embættinu um nokkurt skeið. Það snýr að skipulagðri brotastarfsemi, innflutningi og sölu og dreifingu á fíkniefnum hér á landi, peningaþvætti og vopnalagabrotum.

Um 40 milljónir í reiðufé

Lögregla lagði meðal annars hald á fíkniefni, lyf, stera og um 40 milljónir króna í reiðufé, auk nokkurra peningatalningavéla. Þá haldlagði lögregla ýmsar gerðir af skotvopnum og öðrum vopnum, m.a. skammbyssu búna hljóðdeyfi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni. 

Hún segir enn fremur, að á þriðja tug manna hafi veirð handteknir í þágu rannsóknarinnar og framkvæmdar hafi verið rúmlega þrjátíu leitir í umdæminu í tengslum við hana.

18 hafa stöðu sakbornings

Flestir sakborninganna voru handteknir í aðgerðum lögreglu um miðjan apríl, en þá stóð hópurinn fyrir komu tveggja manna sem fluttu fíkniefni til landsins með skemmtiferðaskipi. Í kjölfarið voru fimm aðilar úrskurðaðir í gæsluvarðhald og sæta því enn, utan eins þeirra. Sá var færður í afplánun vegna eldri dóms að loknu einnar viku gæsluvarðhaldi. Í dag hafa 18 aðilar stöðu sakbornings í málinu að sögn lögreglu. 

Þá kemur fram, að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi lokið rannsókn málsins en við hana og aðgerðir sem gripið var til naut hún aðstoðar lögreglumanna frá öðrum embættum, auk Tollsins og Landhelgisgæslunnar.

Málið verður nú sent embætti héraðssaksóknara til frekari meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka